136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[20:48]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. þingforseti. Það er einhver flensa í gangi og ég er ekki frá því að hæstv. iðnaðarráðherra hafi smitast þegar hann fer að tala um að hann gæti verið framsóknarmaður, en það er nú annað.

Hæstv. iðnaðarráðherra talar um að ýmislegt sé nothæft í þessu og það sem hann minntist á er nokkuð sem engu máli skiptir, er byrjað á, búið að gera eða er í vinnslu. Svo þegar kom að aðalþættinum í þessu, þ.e. 18. lið um 20% flatan niðurskurð, stoppar hann við eins og allir aðrir þegar hann áttar sig á því að þarna er verið að tala um eitthvað sem er upp á 1.200 milljarða kr. skuld og sem hann áttar sig á að ekki er hægt að ganga í að borga niður. Þá verður að benda á hvar eigi að taka peninga í það en framsóknarmenn hafa ekki gert það.

Það er líka hárrétt hjá hæstv. iðnaðarráðherra að það eru punktar sem auðvitað er hægt að skoða. Þeir eru hins vegar ekki margir og ég hvet hæstv. iðnaðarráðherra til að fara betur yfir þá og skoða áður en hann gefur framsóknarmönnum byr undir báða vængi um að eitthvað af þessu sé nothæft.

Ég ítreka enn og aftur að það er einhver flensa að ganga og þegar hæstv. iðnaðarráðherra talar um að hann gæti verið framsóknarmaður er eitthvað mikið að ske.