139. löggjafarþing — 105. fundur,  7. apr. 2011.

skuldsetning þjóðarbúsins.

[10:44]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Frú forseti. Sú tala sem ég nefni um skuldsetningu í erlendu fé, 4.300 milljarðar, er eftir upplýsingum frá Seðlabanka og Hagstofu og þar er tekið tillit til skulda og búið að færa þær út sem stafa af þrotabúum gömlu bankanna. Það er ekki um það að ræða að þetta sé eitthvað sem liggur fyrir. Þetta birtist okkur ágætlega um þessar mundir, ekki síst í vandræðum Orkuveitu Reykjavíkur sem þarf að fá fjármögnun frá Seðlabankanum til að standa við sitt. Við fáum síðan fréttir af erfiðleikum Hafnarfjarðarbæjar af gjalddaga láns upp á 4,3 milljarða í dag. Þarna birtast erfiðleikar okkar í þessu efni í hnotskurn. Okkur skortir gjaldeyri til að ráða við þessar skuldbindingar.

Forsendan fyrir því að þetta geti gengið eftir er sú að hér verði einhver vöxtur og verðmætasköpun. Ég ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra um hvað hann telji (Forseti hringir.) þjóðarbúið þola mikla greiðslubyrði af erlendum skuldum án þess að það komi fram í þrýstingi á krónunni.