144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:45]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það hallar nú mjög degi. Þetta er búinn að vera nokkuð viðburðaríkur dagur. Ég held að okkur hljóti öllum að vera ljóst sem hér höfum verið í dag að málatilbúnaður meiri hluta atvinnuveganefndar er kolfallinn. Hann er ónýtur. Málið er ónýtt. Ég held að forseti gerði rétt í því að fara að segja þetta gott í dag og notaði þá óttuna til að hugleiða hvort ekki væri skynsamlegt að taka til við önnur mál á morgun. Mér sýnist stjórnarmeirihlutanum ekki veita af að hugsa ráð sitt í þessum efnum.

Ég held að niðurstaðan geti aðeins orðið ein ef á að vera einhver bragur á framhaldi þessa máls, að þessi tillaga og þar með auðvitað breytingartillagan verði einfaldlega kölluð til baka, málið er orðið ónýtt í höndum ríkisstjórnarinnar, og inn komi nýtt mál að hausti í samræmi við stöðu mála hjá verkefnisstjórn. Ef eitthvað hefur þar bæst við, þá það, annars verður tillaga væntanlega um Hvammsvirkjun eina og síðan yrði þeirri tillögu vísað til (Forseti hringir.) umhverfis- og samgöngunefndar, herra forseti.