151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[15:16]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vildi koma hér upp og tjá mig um þetta mál, ekki síst af þeirri ástæðu að ég er ekki í hópi þeirra þingmanna sem eru skrifaðir fyrir þessu nefndaráliti. Í því fólst hins vegar engin efnisleg andstaða við þetta mál heldur stóð einfaldlega þannig á í það sinn að ég fór fyrr af fundi sem hafði þær afleiðingar í för með sér. Ég sat aðra fundi nefndarinnar um þetta mál og var í upphafi meðferðar þeirrar skoðunar að ástæða væri til þess að hnykkja á ýmsum atriðum í þessu ákvæði, 1. mgr. 227. gr. almennra hegningarlaga. Það er auðvitað ekki þannig að hér sé verið að lögfesta eða setja nýtt ákvæði um mansal. Það lá fyrir þá þegar. En verið er að skerpa á því og færa, vil ég leyfa mér að segja, lögreglu og ákæruvaldi, dómstólum, betri og beittari verkfæri til að takast á við þessi tilteknu afbrot með þessu ákvæði.

Hv. framsögumaður, Birgir Ármannsson, fór ágætlega yfir vinnuna hér í ræðu sinni. Ég tek undir að gestir þeir sem komu fyrir nefndina til að fjalla um málið voru yfirleitt jákvæðir gagnvart þessum tilteknu breytingum. Eins og ég sagði var þetta ákvæði sem þurfti dálítið á styrkingu að halda. Stundum hefur verið talað um að þröskuldurinn sem var settur í þessu ákvæði hefði verið of hár þannig að það hefði hamlað lögreglu aðgengi að því að komast að þessum rannsóknum. Það er auðvitað alltaf gott að rýna og ekki síst út frá sjónarmiðum þess fólk sem þekkir til. Mér sýnist að hér hafi tekist ágætlega til. Markmiðið var að auka réttarvernd þeirra sem verða fyrir mansali. Það verður m.a. gert með því að þær stofnanir sem eiga að taka á slíkum brotum hafi til þess réttu úrræðin.

Hins vegar er það þannig, og kannski er það höfuðsynd lögfræðingsins að segja það, að lagaákvæðið eitt og sér mun ekki gera mikið. Það mun ekki ráða úrslitum í baráttu sem þessari ef innviðirnir eru ekki sterkir að þessu leyti. Í því samhengi myndi ég vilja nefna að það er hinn íslenski veruleiki í tengslum við mansal hvað réttarkerfið varðar að dómar fyrir brot af þessu tagi eru fáir sem engir. Síðast þegar ég vissi hafði einn dómur fallið þar sem menn voru sakfelldir fyrir mansal. Það er ekki vegna þess að dómstólarnir séu í gríð og erg að sýkna fyrir þessi brot. En einhverra hluta vegna er staðan sú að það eru fáar ákærur gefnar út og þá þarf auðvitað að spyrja hverju það sæti. Getur ástæðan verið sú að Ísland sé alveg laust við þessi brot? Ég hugsa að það sé enginn glannaskapur að svara því hér strax að það er auðvitað ekki þannig. Það þarf því eitthvað meira að koma til en bara það að löggjöfin sé styrkt og bætt, án þess að ég vilji gera lítið úr því að það sé gert, það er vissulega mikilvægt skref og liður í því að ná utan um þessi brot.

Mansal held ég að hafi framan af í almennri umræðu verið tengt við svokallað kynlífsmansal, sem er kannski óheppilegt orð, eða vændi og kynlífsiðnað. Hins vegar eru margar tegundir og margar birtingarmyndir þessara brota til og vinnumansal held ég sé í vaxandi mæli farið að ná athygli almennings sem raunverulegt vandamál á Íslandi.

Það er líka rétt sem komið hefur fram í umræðunni hér í dag að það er ákveðið sérkenni á þessum brotaflokki að þolendur slíkra brota, og það á ekki bara við um Ísland, eru yfirleitt í þeirri veiku og viðkvæmu stöðu að þeir leita ekki sjálfir til yfirvalda nema í mjög takmörkuðum mæli. Þeir leita kannski til annarra stofnana með önnur vandamál, þannig að það skiptir máli að þeir sem vinna beint og óbeint að þessum málum hafi til að bera þekkingu og læsi á því þegar flöggin sjást. Það skiptir máli að lögreglan sé í þeirri stöðu að hún geti sinnt frumkvæðisvinnu að þessu leyti, að hún sé í þeirri stöðu að geta talað við fólk, byggt upp tengsl til að mæta stöðu og veruleika þolenda.

Ég vil líka nefna ábyrgð almennings, af því að þegar við erum að tala t.d. um vinnumansal þá er það okkar allra að rýna það hvernig neytendur við erum í okkar daglega lífi, hvernig kaupendur við erum. Hvað vitum við? Hvað veit fólk um þau sem það ræður til starfa? Hvað vitum við um fólk sem er að koma í smíðavinnu fyrir okkur eða byggja fyrir okkur? Hvað vitum við um fólkið sem þrífur fyrirtækin sem við störfum hjá, skúrar skrifstofuna o.s.frv.? Neytendur í dag eru gegnumgangandi mjög meðvitaðir; meðvitaðir um uppruna vörunnar, matvörunnar sem við kaupum, við hvaða aðstæður matvaran er unnin eða grænmetið ræktað o.s.frv., en mér finnst þann þátt oft vanta dálítið í samtalið að við sem ábyrgir neytendur séum líka ábyrg fyrir því að skoða kjör þess fólks sem framleiðir vöruna eða veitir þjónustuna sem við erum að kaupa.

Mín skilaboð hér eru þessi: Löggjöf er góð. Hún er nauðsynleg forsenda þess að við náum árangri í þessari baráttu, en hún er ekki nægjanleg forsenda því að góðri löggjöf þarf að fylgja heildarstefna og markviss fókus af hálfu stjórnvalda á hverjum tíma, af hálfu ráðherra á hverjum tíma. Ég ætla ekki að standa hér og halda því fram að kerfið á Íslandi hafi ekkert gert, ég er einfaldlega að benda á að það er einhver brekka sem hefur þær afleiðingar að við náum ekki utan um þessi brot með þeim hætti að þau leiði til ákæru og dóma.

Í því sambandi vil ég nefna að almenn löggæsla og sérhæfðari rannsóknarvinna ganga hönd í hönd að þessu leyti. Báðir þættir þurfa að vera sterkir og báðir þættir þurfa að geta unnið saman til að árangur náist. Ég hef áhyggjur í þessu samhengi vegna þess að við höfum í nokkur skipti rætt hér m.a. málsmeðferðartíma í réttarkerfinu almennt séð. Og núna er uppi ákveðin staða innan lögreglunnar sem hefur í sjálfu sér líka verið til umræðu lengi án þess að því hafi fylgt mjög mikið af hálfu þeirra stjórnvalda sem nú eru við völd. Þessi biðlistamenning núverandi stjórnvalda, réttarkerfið er þar ekki undanskilið. Mér hefur fundist tilhneiging hér til að skerpa á tilteknum ákvæðum annað slagið án þess að því fylgi heildstæð stefna, markviss fókus á hverjum tíma. Það sjáum við reyndar í næsta máli á dagskrá þar sem verið er að leggja fram tímabundnar aðgerðir vegna þess að það eru meira að segja biðlistar í fangelsin á vakt þessarar ríkisstjórnar. Dómar eru að fyrnast og nú er verið að leggja fram ákveðnar aðgerðir sem ég hef í sjálfu sér samúð með, en þær eru auðvitað bein afleiðing af þessari refsistefnu ríkisstjórnarinnar.

Í lokin vil ég fá að nefna að þegar kemur að mansali þurfum við líka að horfa til þess að þarna er brotið gróflega gegn þeim sem fyrir brotunum verða. Þetta eru gróf og alvarleg brot gegn brotaþolum í þessum málum. Hins vegar er það þannig t.d. með vinnumansalið að það er gríðarlegur samfélagslegur kostnaður af þeim brotum í formi til að mynda hvaða áhrif þetta hefur á samkeppni milli fyrirtækja sem annars vegar fara að settum reglum og lögum og hinna sem gera það ekki. Þetta hefur þau áhrif að skattar og gjöld berast ekki til ríkisins í samræmi við lög og reglur þannig að birtingarmyndirnar og afleiðingar þessara brota eru víðtækar og hafa áhrif á okkur öll.

Lokaskilaboð frá mér eru þess vegna þau að samhliða þeim góðu breytingum sem hér eru að verða á því ákvæði sem tekur á mansali, þá er það ósk mín og von að settur sé markvissari fókus af hálfu ráðherra í málaflokknum á slík afbrot með það að leiðarljósi og með það að markmiði að færa þau upp á yfirborðið, fram í dagsljósið og að þeir sem bera ábyrgð á þeim sæti ábyrgð í samræmi við þau ákvæði sem hér gilda. Það eru sterkustu varnaðaráhrifin, að þeir sem brjóta af sér með þessum hætti hafi þá tilfinningu að það hafi afleiðingar í för með sér að gera það. Það er því miður ekki alveg reyndin eða staðan í dag.