139. löggjafarþing — 105. fundur,  7. apr. 2011.

skuldaúrvinnsla fyrirtækja og heimila.

[11:04]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir svörin. Það er mikilvægt að halda því til haga að neytendur geta leitað til umboðsmanns skuldara með útreikningana á þessum málum. Það er mikilvægt að menn geri það ef þeir telja að ekki sé rétt að verki staðið.

Þetta er afar flókið mál, það er gríðarlegur fjöldi af mismunandi útfærslum og álitaefnum og alveg ljóst að fara þarf vel yfir þau álitaefni og mikilvægt að fólki leiti réttar síns þar. Ég hlakka til að heyra viðbrögð hæstv. ráðherra varðandi síðara efnið sem er hraðbrautin því að ráðherrann hefur af myndarskap tekið til við að knýja á um skuldaúrvinnslu smárra og meðalstórra fyrirtækja. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur í enduruppbyggingu efnahagslífsins í landinu að fá skuldir fyrirtækjanna á hreint. Það er ljóst að þær aðgerðir (Forseti hringir.) munu ekki ná til eins margra fyrirtækja og við vonuðumst til og það verður gott að heyra hvaða hugmyndir hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra hefur um hvernig við getum fylgt því enn betur eftir.