149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

kostnaður við endurskoðað lífeyriskerfi.

[15:37]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra hefur ítrekað sýnt að hann er vel skólaður í stjórnmálaskóla Framsóknarflokksins og mjög lunkinn við að smeygja sér undan því að svara spurningum sem til hans er beint.(Gripið fram í.) Hér hefur ítrekað verið reynt að spyrja hæstv. ráðherra, sem er háll eins og áll, hvað tillögurnar muni kosta og hvernig eigi að fjármagna þær. Þetta eru tvær einfaldar spurningar. Ég trúi ekki öðru en að hæstv. ráðherra viti svarið við þeim. Ég reikna frekar með því að hann kjósi að svara ekki og það þykir mér miður. Það er auðvitað mjög mikilvægt fyrir þingið að vega það og meta núna þegar við erum m.a. að fara að fjalla um fjármálaáætlun á komandi vikum hvað sé ófjármagnað í þeirri fjármálaáætlun. Það er alveg ljóst að í málaflokki hæstv. ráðherra er með engu gert ráð fyrir þeim kostnaði sem hér má ætla að sé á ferðinni.

Ráðherra til upplýsinga, af því að ég þykist kannast við málaflokkinn og hef spurt m.a. inn í starfshópinn hvað þetta muni væntanlega kosta, er sú stærðargráða á bilinu 15–30 milljarðar eftir því hvaða útfærsla er valin.

Ég bið hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) að svara mér í seinna svari: Hvernig hyggst hæstv. ráðherra fjármagna þau útgjöld núna þegar kreppir að í samfélaginu til að tryggja að öryrkjar verði ekki enn eina ferðina skildir eftir?