149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nefnilega þetta, þessi stjórnskipulega skoðun sem þarf þá að koma til ef hingað kemur tillaga um að leggja sæstreng. Margir sem ég tala við, á internetinu góða og víðar, treysta Alþingi ekki til að taka rétta ákvörðun í því. Það er vantraust sem ég skil mætavel vegna þess að Alþingi hefur tekið rangar ákvarðanir í fortíðinni, einu sinni eða tvisvar. En það hlýtur þá að verða að stjórnskipulegu umræðuefni, ef til þess kemur að leggja sæstreng, hvort það standist stjórnarskrána að virkja þessar greinar, 7.–9.

Virðulegi forseti. Þá hlýtur það að verða að spurningu. Ef til þess kemur að leggja sæstreng hlýtur sá stjórnarskrárlegi vafi sem nú er uppi, um 7.–9. gr. í reglugerðinni, að koma aftur upp þegar þær sömu greinar verða virkjaðar. (Forseti hringir.) Það hlýtur að vera hluti af því stjórnskipulega mati þegar sæstrengur yrði lagður, ólíkt því sem væri tilfellið í dag án þriðja orkupakkans.