135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[23:12]
Hlusta

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Herra forseti. Kirkjan hefur löngum verið lipur við að semja sig frá málum og semja til friðar. Það er af hinu góða. Menn geta þó haft sína skoðun á gildi og niðurstöðum þeirra samninga. Ég sagði í upphafi máls míns að ég teldi að þetta væri alveg ásættanleg niðurstaða.

En hitt hefði verið betra vegna þess að það sem ég nefndi útþynningu er kannski fyrst og fremst afsökunartónn að mínu mati. Það er mitt mat í þeim efnum. Ég veit hins vegar að það eru margir fleiri sem hafa það mat. En þetta er það sem ég gagnrýni. Mér þykir það veikara en skyldi, það er ekki eins þéttriðinn kaðall og ætti að vera.