138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[12:04]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu tel ég Alþingi þurfa að taka sér þann tíma sem það telur sig þurfa til umræðna um skýrsluna, en Alþingi þarf auðvitað líka að vinna mikla vinnu. Fleiri en ein og fleiri en tvær nefndir eru að störfum, í fyrsta lagi auðvitað sérnefnd Alþingis og í öðru lagi nefnd innan Stjórnarráðsins undir forustu Gunnars Helga, sem á innan 2–3 vikna að skila fyrstu tillögum og fyrstu greiningu á stjórnsýsluþáttunum og því sem snýr að Stjórnarráðinu. Ég tel að hvert einasta ráðuneyti eigi að setja starfshóp í gang á sínum vegum til að fara yfir þetta, hver einasta stofnun sem þarna á í hlut. Ég tel að sá möguleiki hljóti að koma til skoðunar að Alþingi skipti með einhverjum hætti með sér verkum og að t.d. fagnefndir þingsins taki sérstaklega til skoðunar þá kafla sem eru á þeirra sviði. Það þyrfti helst að halda vel utan um það verklag þannig að allir tækju þátt í þeirri vinnu. Það er ansi mikið af þessu sem mundi lenda á borði efnahags- og skattanefndar, viðskiptanefndar og fjárlaganefndar, en það getur að sjálfsögðu varðað fleiri fagnefndir, eins og allsherjarnefnd. Þetta þarf einhvern (Forseti hringir.) veginn að kortleggja og vinna skipulega.