140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:20]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf):

Frú forseti. Sú tillaga sem við greiðum atkvæði um er mikilvægur áfangi að því að ljúka því lýðræðislega opna ferli sem hófst á þjóðfundinum, var fram haldið í stjórnlagaráði og mun ljúka með þinglegri meðferð frumvarps stjórnlagaráðs á komandi vetri.

Hvað spurningarnar varðar skal það tekið fram að ítrekað var leitað eftir samstarfi við þingmenn stjórnarandstöðunnar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um það hvernig þær skyldu unnar og hvernig með þær skyldi farið. Því samstarfi var hafnað. Þessir sömu stjórnarandstöðuþingmenn höfnuðu jafnframt öllu samstarfi við stjórnlagaráð sem sérstaklega var kallað saman af þessu tilefni.

Þær spurningar sem lagt er upp með byggjast á þeim umsögnum sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd bárust. Þær byggjast á viðræðum og samstarfi við stjórnlagaráð. Þær eru unnar í samráði við okkar færustu sérfræðinga á því sviði, löglærða sem aðra. Ég segi því já við þessum tillögum. Að lokum, frú forseti, fagna ég sérstaklega þeim mikla þingstyrk sem Alþingi hefur núna veitt ríkisstjórninni til að halda áfram aðildarviðræðum að Evrópusambandinu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)