144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:09]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er margt um það að segja að þetta mál skuli vera á dagskrá, eins og ég er margítrekað búin að ræða hér og spyrja forseta hvort hann telji ekki að önnur mál hefðu verið betur til þess fallin að vera hér á dagskrá, sem hægt hefði verið að afgreiða hér í sátt og samlyndi, fremur en að setja þetta mál hér inn. Það er við hæfi að lesa aðeins upp úr stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun vinna að því að Ísland verði í fararbroddi í umhverfismálum á heimsvísu og öðrum þjóðum fyrirmynd á sviði umhverfisverndar.“

Finnst okkur þetta passa við það sem hér er verið að gera? Nei, ég held ekki. Ísland hefur nefnilega sérstöðu í umhverfismálum, eins og hér kemur fram:

„… í krafti ósnortinnar náttúru og sjálfbærrar nýtingar endurnýjanlegra auðlinda. Sú ímynd er auðlind í sjálfri sér. Unnið verður að því að styrkja þá ímynd og grundvöll hennar, að vernda íslenska náttúru og efla landgræðslu og skógrækt þar sem það á við.“

Virðulegi forseti. Þetta er ekki það sem (Forseti hringir.) meiri hluti hv. atvinnuveganefndar leggur til.