149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:07]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna þess að hv. þingmaður nefndi hérna „head-settið“ þá nota ég það til þess að fylgjast með Alþingi þegar ég þarf að bregða mér út úr þingsal, bara þannig að það sé sagt.

Það er rétt hjá hv. þingmanni. Ég hef fylgst mjög vel með umræðunni hérna, bæði á meðan ég hef verið viðstaddur sjálfur í þingsalnum og á meðan ég hef verið annars staðar líka. Ég hef ekki hlustað á allt. Ég verð að viðurkenna að ég vakti ekki til klukkan hálf sjö hérna um daginn til að hlusta á hv. þingmenn Miðflokksins tala hver við annan fram á morgun.

En hv. þingmaður svarar ekki í neinu spurningu minni, ekki á neinn hátt. Ég hef ekki staðið hér í pontu og varað við því að við segjum nei við þessu og sendum þetta aftur til EES. Ástæðan er sú að ég hef engar sérstakar áhyggjur af því, ég sé enga ástæðu til þess.

Ég spurði hv. þingmann: Hvað er það sem hv. þingmaður telur að við eigum ekki að gefa eftir? Hver er fórnin? Hvað er það í orkupakkanum sem við værum að gefa eftir með því að samþykkja hann? Ef það er ekki komið alveg á hreint þá felur þessi orkupakki ekki í sér brot á stjórnarskrá, felur ekki í sér sæstreng, felur ekki í sér hækkun verðlags umfram sveiflurnar hvers heimilis, felur ekki í sér uppskiptingu fyrirtækja, felur ekki í sér einkavæðingu, felur ekki í sér aukna markaðsvæðingu, hvað svo sem í ósköpunum menn eiga við með því. Hann felur hins vegar í sér meira gagnsæi, samkeppniseftirlit og neytendavernd, ekkert svakalega mikið, en smá meira. Hvað munum við gefa eftir þarna?

Áhrif þessa orkupakka endurspeglast í öðru frumvarpi sem við erum með hér og í öðrum þingmálum. Mér finnst svo skrýtið að hv. þingmaður hafi ekki pikkað út úr því eitthvert hræðilegt. Og þó, reyndar finnst mér það ekkert skrýtið því að það er ekkert hræðilegt þarna. Við erum ekki að gefa neitt eftir. En hv. þingmenn fara einhvern veginn alltaf að tala um að við myndum samþykkja einhverja hugmyndafræði eða byrja á að tala um fjórða orkupakkann eða byrja að tala um eitthvað sem fyrsti og annar orkupakkinn gerði. Gott og vel. Flott. Skil allt saman. En við erum hérna að ræða þriðja orkupakkann. Hvað er það sem við gefum eftir samkvæmt hv. þingmanni?