154. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2024.

aðgerðir og fjárframlög vegna fíkniefnavandans.

[15:37]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil nú byrja á því að þakka hv. þm. Tómasi A. Tómassyni í fyrsta lagi fyrir að láta sig þessi mál varða. Það er mikilvægt. Það er mikilvægt, eins og hv. þingmaður fór hér yfir, að við tökum höndum saman vegna þess að líklegast væri skynsamlegt að líta svo á að sjaldnast verði nóg nóg. Þetta er stöðug barátta. Þetta er stöðug barátta um að gera betur, stöðug barátta um að fjármagna málaflokkinn betur, stöðug barátta um að fjölga úrræðum, stöðug barátta um að ná utan um þennan flókna málaflokk. Hann er af lífsálfélagslegum toga. Hann á sér marga snertifleti við samfélagið og við þurfum mjög samþætt átak til að ná utan um þennan hóp.

Hv. þingmaður fór hér yfir lokun á Vík og lokun á göngudeild sem er auðvitað ákvörðun sem sjúkrahúsið tekur en ekki ákvörðun í höndum ráðherra. Þá er auðvitað skynsamlegt að spyrja: Ja, getur sjúkrahúsið tekið einhliða slíka ákvörðun? Nú erum við með hóp sem þarf á meðferð að halda og þarf á samfellu við meðferð að halda, göngudeildarþjónustu sem fylgir í kjölfarið og mjög svo öflugri þjónustu á Vík. Sjúkrahúsið verður auðvitað og hefur svarað því í fréttatilkynningu að það þarf sérhæft starfsfólk sem þarf líka að komast í frí. Þeir hafa skipulagt sig þannig að það hefur verið hægt að loka tímabundið en sjúkrahúsið sjálft lokar ekki. Ég hef óskað eftir því við Sjúkratryggingar, í mjög góðu samtali sem nú fer fram um heildarsamning sem er um 1,5 milljarðar að umfangi miðað við aðra samninga, þetta eru fjórir samningar sem koma í einn, að fara mjög vel yfir gæði þjónustunnar gagnvart sjúklingunum, hvaða áhrif þetta hefur, hvaða afleiðingar þetta hefur. Hvað kostar það ef við þurfum að tryggja gæði þjónustunnar og halda opnu? Hvernig getum við komið til móts við aðila? Þannig að þetta er sameiginlegt verkefni okkar.