131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Sala Lánasjóðs landbúnaðarins.

[10:58]

Gunnar Örlygsson (Fl):

Frú forseti. Ég held að það hljóti að teljast nokkuð jákvætt ferli hjá ráðherra að huga að breytingum hjá Lánasjóði landbúnaðarins, sérstaklega í ljósi breyttra aðstæðna á fjármálamarkaði.

Það hefur komið í ljós í máli hv. þingmanna að bændur sjálfir eru á því máli að skoða nýjar leiðir með lánasjóðinn, og kom m.a. fram í máli hv. þm. Drífu Hjartardóttur að bændur hafi verið að greiða upp lán sín hjá sjóðnum með tilstuðlan betri kjara hjá fjármálafyrirtækjum á markaði.

En, frú forseti, leyfist mér að spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra Guðna Ágústsson, sem virðist nú vera að vakna af værum blundi hvað varðar ríkisbáknið og stofnanir sem heyra til gamalli tíð, hvort sama hugsun sé í gangi hjá hæstv. ráðherra gagnvart Íbúðalánasjóði. Í raun má telja að Lánasjóður landbúnaðarins annars vegar og Íbúðalánasjóður hins vegar séu ekki ólíkar stofnanir að því leytinu til að þær eru ríkisreknar og heyra undir ríkið, eru í keppni við fjármálafyrirtæki á markaði um lánafyrirgreiðslur til neytenda. Má því spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta sé vísir að því að Framsóknarflokkurinn sé að vakna af værum blundi er varðar tillögur Íbúðalánasjóðs á markaði?

Það væri gleðiefni líka, frú forseti, ef hæstv. landbúnaðarráðherra ætlaði sér að fækka stofnunum og deildum innan landbúnaðarins, leggja til að mynda niður embættismann íslenska hestsins sem ég hef ekki skilið fram til þessa. Munum við sjá þetta jákvæða ferli í frekara mæli hjá hæstv. ráðherra?