135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[16:04]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég gat um í ræðu minni álít ég að leikskólinn sé orðinn hluti af hinu íslenska heimili og hafi tekið við stóru verkefni sem áður var verkefni foreldranna og þeir fást ekki við vegna þess að þeir hafa ekki í dag þann tíma sem þeir þurfa vegna þess að þeir eru úti á vinnumarkaðnum. Þess vegna tel ég náttúrlega mjög mikilvægt að leikskólinn sé sem líkastur heimilinu á margan hátt, þar fari saman stór systkinahópur og mikil umönnun og mötuneytin þar eru mikilvæg. Ég held að við sjáum það hér á síðustu árum hvernig sjoppufæði, hvernig einhver nestisbox hafa valdið skaða á heilsu fólks og það er ekkert mikilvægara en hinar góðu máltíðir dagsins og börn á leikskólum þurfa ekki síður í á þeim að halda en aðrir og kannski enn frekar en hinir fullorðnu. Við glímum við mikið vandamál þegar við horfum til framtíðarinnar hvernig börn og unglingar hafa verið að þyngjast og hvernig við höfum í rauninni látið bisnessaðilana troða sælgæti og gosi og allri þeirri óhollustu að börnunum. Mér finnst nú vera vakning hjá ungum foreldrum að vinna gegn þessu og fara meira að hollustustefnu og hugsa um heilsu barnsins síns. Ekkert er mikilvægara í mínum huga en að sveitarfélögin og ríkisvaldið fylgi þeirri hugsun vel eftir.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvörin og ég finn að hugir okkar liggja saman, ég er eiginlega hissa að hann skuli ekki verða framsóknarmaður, svo vel er hann hugsandi. [Hlátrasköll í þingsal.] Mér finnst vera Jónasarstrengur í honum og mundi þiggja hann í flokkinn. (Gripið fram í.)