141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:02]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögu sem ég legg hér fram við þetta mál, sem er nú kannski svolítið sérstök vegna þess að hún felur í sér alla þá vinnu sem unnin hefur verið í málinu á síðustu árum. Hér er um að ræða frumvarp stjórnlagaráðs eins og það lítur út eftir vinnu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar með öllum þeim breytingartillögum sem þar hafa verið lagðar fram (Gripið fram í.) eins og þær hefðu verið hér samþykktar sem hefur auðvitað ekki gerst enn, enda var málið tekið af dagskrá í miðri 2. umr. og hefur ekki fengist aftur á dagskrá.

Nú sýnist fólki ýmislegt um þessa breytingartillögu og sitt sýnist hverjum. Mér finnst það mjög skiljanlegt vegna þess að það er mjög óhefðbundið að leggja fram heilt frumvarp inn í breytingartillögu á einni grein. Að mínu mati var þetta hins vegar eina mögulega leiðin sem hægt var að fara til að virða þetta ferli nú, þegar Alþingi virðist ætla að koma sér undan þeirri skyldu sem mér finnst Alþingi hafa, þeirri siðferðislegu skyldu að greiða atkvæði um þetta mál.

Við þingmenn úr fjórum flokkum lofuðum því að fara í endurskoðun á stjórnarskránni. Þetta var kosningaloforð, eitt af stóru kosningaloforðunum eða kosningamálunum í mínum huga fyrir síðustu kosningar. Mér finnst þetta mjög nauðsynleg og tímabær endurskoðun. Ég er mjög sátt við þá vinnu sem hefur verið unnin. Hún hefur verið unnin á mjög breiðum grundvelli. Þátttaka almennings hefur í raun og veru verið á öllum stigum málsins og allt ferlið hefur verið opið. Ég veit að þetta hefur vakið mikla eftirtekt víða um heim og hef sjálf orðið vör við það og hef farið í ótal viðtöl og verið boðið að taka þátt í ráðstefnum erlendis til að fjalla um ferlið. Ég veit að svo er um miklu fleiri.

Af hverju erum við að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins? Það er að mínu mati vegna þess að það er löngu tímabært. Allir 63 þingmenn Alþingis eru mér sammála um það. Fyrir liggur þingsályktun frá 28. september 2010, sem er oft kölluð 63:0. Hún er um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem rannsóknarnefndin skilaði það sama ár. Þar eru talin upp í 12 liðum hvaða löggjöf þarf að endurskoða eða undirbúa eftir atvikum. Númer eitt er stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Ég var ekki í þeirri nefnd en var svo heppin að fá að koma inn í hana sem varamaður og taka þátt í þeirri vinnu. Skýrslan var náttúrlega áfellisdómur yfir íslenskum stjórnarháttum og stjórnvöldum, Alþingi, ríkisstjórn og stjórnmálamenningu, enda ályktaði Alþingi líka að afar brýnt væri að taka starfshætti þingsins til endurskoðunar og að Alþingi ætti að verja og styrkja sjálfstæði sitt og grundvallarhlutverk.

Við ályktuðum líka um að við ættum að taka gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega og læra af henni. Það hef ég reynt að gera og mér þykir mjög miður hvernig komið er fyrir Alþingi Íslendinga sem stóð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október síðastliðinn en virðist ekki ætla að virða hana. Við höfum einmitt hlýtt á ræður í dag þar sem því er hreinlega haldið fram að af því þetta væri ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla þá séu þingmenn í engu bundnir af henni. Þetta þykir mér afar miður að heyra og eiginlega bara mjög sorglegt.

Það er ekki æskilegur farvegur að mínu mati til að halda áfram með stjórnarskrármálið að samþykkja það í breytingartillögu. Það er alls ekki æskilegur farvegur. En af hverju gerði ég það? Ég gerði það, forseti, vegna þess að ég sá enga aðra leið til að fá umræðu um málið, fá það í atkvæðagreiðslu og fá upp vilja þingmanna.

Við erum í miðri umræðu um 415. mál, þ.e. það frumvarp sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd lagði fram eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Þar ættum við að halda áfram með málið, halda umræðunni áfram því að hún var mjög góð. Það voru mörg sjónarmið komin fram og við ættum að klára umræðuna, ganga til atkvæða og vísa málinu aftur til nefndar. Ef eitthvað þarf að laga höfum við tækifæri til að gera það og leggja það til fyrir 3. umr.

Lögskýringargögn liggja fyrir í málinu. Ég vil taka fram að þau lögskýringargögn sem lögð hafa verið fram um 415. mál, sem er í grunninn frumvarp stjórnlagaráðs, fylgja í raun þessari breytingartillögu þótt þau séu ekki prentuð með, ég tek það hér fram í ræðu.

Sumir hafa haldið því fram að málið sé fallið á tíma. Ég er því ósammála. Við höfum rætt málið og unnið það gríðarlega vel. Eðli málsins samkvæmt eru stjórnarskipunarlög alltaf afgreidd í lok þings. Það er akkúrat það sem við erum að ræða, hvernig eigi að breyta stjórnarskránni, því að um leið og stjórnarskipunarlög hafa verið samþykkt ber að rjúfa þing og boða til kosninga. Svo þarf næsta þing að afgreiða málið aftur. Það er því algjör fyrirsláttur að ekki sé tími til að gera það. Við erum einmitt á réttum tíma í öllu þessu ferli. Það getur vel verið, því að þetta er mjög flókið mál, að einhverjir þingmenn hafi ekki gefið sér tíma til að kynna sér málið. Ég velti fyrir mér hvað þeir vilji vegna þess að þetta mál er í mínum huga merkilegasta og mikilvægasta málið sem við fjöllum um hérna. Mér finnst það algjörlega óafsakanlegt ef fólk treystir sér ekki til að taka afstöðu til þess af því að það hefur ekki kynnt sér það.

Völdin eiga að mínu mati að vera hjá þjóðinni. Ég lít á það sem svik að afgreiða málið ekki. Við spurðum þjóðina 20. október 2010. 64,2% kjósenda svöruðu því með jái að þeir vildu að tillögur stjórnlagaráðs væru lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Við höfum farið eftir því.

74% vildu að í nýrri stjórnarskrá væru náttúruauðlindir sem ekki væru í einkaeigu lýstar þjóðareign.

Rétt rúmur meiri hluti vildi að ákvæði væri í stjórnarskrá um þjóðkirkju á Íslandi. Þótt ekki væri gert ráð fyrir því í tillögum stjórnlagaráðs bætti stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að sjálfsögðu þeirri grein við frumvarpið af því að við viljum lúta þjóðarvilja.

Einnig var spurt um persónukjör. 68,5% kjósenda vildu að persónukjör í kosningum til Alþingis væri heimilað í meiri mæli en nú er.

Einnig var spurt um hvort vilji væri fyrir því að í nýrri stjórnarskrá væri kveðið á um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vægi jafnt, já sögðu 58,2%.

Sjötta spurningin var um hvort fólk vildi að í nýrri stjórnarskrá væri ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna gætu krafist þess að mál færu í þjóðaratkvæðagreiðslu. 63,4% vildu það.

Það var sem sagt já við öllu. Við höfum unnið málið allt saman í samræmi við vilja kjósenda. Nú er komið að þeim tímamótum að klára það. Okkur er ekkert að vanbúnaði og þingið ætti að sjá sóma sinn í að fara að ræða 415. mál, leggja þetta mál á hilluna sem hér um ræðir enda er það einhver misskilningur að það sé einhver sátt um þessa tillögu formannanna. Það er engin sátt um hana, ekki einu sinni í þeirra eigin stjórnarflokkum, þeir hafa ekki fengið aðra flokka með sér á þann vagn.

Rökréttast í stöðunni og það eina rétta að mínu mati er að halda áfram með 415. mál, lúta vilja kjósenda, standa við gefin loforð, standa vörð um heiður Alþingis og klára þetta mál.