149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:15]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Frú forseti. Ég hyggst í þessari ræðu fjalla aðeins um þróunina á orkumarkaði innan Evrópusambandsins og hvernig sú þróun tengist því stóra markmiði sambandsins sem birtist í þriðja orkupakkanum og svo enn frekar í þeim fjórða og fimmta sem von mun vera á.

Evrópusambandið er í krísu, reyndar á mörgum sviðum en ekki hvað síst á sviði orkumála. Það birtist annars vegar í skorti á nægu framboði af orku, sérstaklega umhverfisvænni endurnýjanlegri orku, en Evrópusambandið hefur skuldbundið sig til þess að auka mjög verulega hlutfall slíkra orkugjafa innan sambandsins á allra næstu árum. Það eykur svo enn á vanda sambandsins að til að mynda í Þýskalandi eru menn að hverfa frá framleiðslu orku með kjarnorku, en hún hefur verið stór þáttur í orkuframleiðslu í Þýskalandi um áratugaskeið. Þeir eru núna að loka kjarnorkuverum sínum hverju á eftir öðru — og reyndar flytja inn kjarnorku frá Frakklandi, sem er önnur saga en segir kannski sína sögu um að þetta er oft dálítið til málamynda.

En þessi lönd innan Evrópusambandsins eiga í verulegum vandræðum með að afla nægrar umhverfisvænnar orku. Menn hafa sett upp vindmyllur út um allar trissur, látið Kínverja um að framleiða stálið í vindmyllurnar með kolabruna þar og reiknað það þá ekki sem losun gróðurhúsalofttegunda í Evrópu. Það er aftur eitthvað sem við getum látið liggja á milli hluta hér.

Vegna þeirrar stöðu knýr Evrópusambandinu nú mjög á um annars vegar tengingu raforkukerfisins, ekki hvað síst tengingu við svæði sem hafa verið einangruð, til að mynda eyjar, það er sérstaklega nefnt, virðulegur forseti, að tengja eyjar. Við höfum séð þetta birtast í samskiptum Evrópusambandsríkja við íslensk stjórnvöld þar sem mjög er hvatt til þess að Ísland verði tengt við þennan raforkumarkað og fyrirtæki hér á landi. Nægir þar að nefna Landsvirkjun. Ekki er farið leynt með að unnið sé að því að verða við þeim óskum með því að tengja landið við evrópska raforkukerfið.

Það er við þær aðstæður sem nú er knúið á um að þriðji orkupakkinn verði innleiddur hér á landi. Hann er með öðrum orðum liður í einu stærsta verkefni sambandsins, einu helsta forgangsverkefnið þess.

Ég nefndi stuttlega í andsvari áðan að það er áhugavert að setja þetta mál í samhengi við mál sem skipta Evrópusambandslöndin miklu minna máli, bara brot af þessu, eins og innflutning á hráu ófrosnu kjöti og ógerilsneyddum matvælum þar sem stöðugt, jafnt og þétt, aftur og aftur, var reynt að veikja varnir Íslands og knýja á um — í rauninni neyða íslensk stjórnvöld — til að heimila þann innflutning sem við töldum okkur hafa undanþágu frá, enda utan EES-samningsins.

Þá hljótum við að velta því fyrir okkur hvort ekki verði knúið á um að markmið þriðja orkupakkans nái fram að ganga og það af enn meiri festu en í tilviki matvælainnflutnings, sem er eins og ég nefndi áðan smávægilegt hagsmunamál Evrópusambandsins í samanburði.

Af þeim sökum er óskiljanlegt að íslensk stjórnvöld skuli ætla sér að bíta á agnið, ef svo má segja, og veikja varnir landsins hvað varðar yfirráð okkar yfir þessari undirstöðuauðlind, auðlind sem er undirstaða atvinnulífs í landinu og velferðar að miklu leyti, þegar það blasir við að hér erum við að opna á að Evrópusambandið styrki stöðu sína og geti sótt á í algjöru forgangsverkefni þessa ríkjasambands.