150. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[16:18]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Það er mikið gleðiefni að sjá atkvæðagreiðslutöfluna og sjá að þetta mál verður gert að lögum. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að hafa haft hugrekki til að leggja það fram og fyrir góða vinnu, bæði með hv. velferðarnefnd og sömuleiðis í ráðuneyti sínu. Ég kemst pínulítið við að við séum komin á þennan stað. Það var ekki endilega fyrirséð fyrir ekki svo löngu að þetta þing og þessi þjóð væru opin fyrir því að snúa af braut refsinga og skamma og fara í átt að skaðaminnkun, aðstoð og kærleika. Á því hvílir þetta mikilvæga frelsis- og mannréttindamál. Nú er næsta skref augljóst, það að afglæpavæða vörsluskammta vímuefna til að við getum tryggt að fólk njóti öryggis þrátt fyrir fíknivanda.