141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:05]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er á svipuðum slóðum og hv. þm. Birgir Ármannsson varðandi ræðu hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar. Ég vil líka byrja á því að þakka fyrir málefnalega nálgun þó að ég sé ekki efnislega sammála öllu því sem hv. þingmaður dró fram.

Hægt er að draga ákveðna mynd upp varðandi auðlindaákvæðið sem ég hef margoft lýst í þessum stól, m.a. í umræðunum fyrir þingkosningarnar 2009, þ.e. að við sjálfstæðismenn værum meira en reiðubúin til þess að ræða auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Við áttum fulltrúa á sínum tíma í nefnd Jóhannesar Nordals árið 2000 og þeir skiluðu af sér merkri tillögu með fullum stuðningi okkar allra. Síðan hefur vel að merkja núverandi formaður, hv. þm. Bjarni Benediktsson, margítrekað sagt það. Það er eins og mönnum í samfélaginu sé í mun, út af orðræðunni sem er því miður oft lítið skemmtileg, að reyna að koma inn einhverri annarri mynd af því hver stefna flokka sé og hver sé ekki stefna flokka. Það er alveg ljóst af orðum formanns míns og líka forvera hans í starfi, Geirs Haardes, sem lagði sjálfur fram tillögu um auðlindaákvæði, að þetta er ótvíræður vilji okkar sjálfstæðismanna. Við áskiljum okkur líka rétt til að ræða þetta málefnalega og reyna að nálgast aðra flokka með ábyrgum hætti. Umræðan kann að hafa þroskast síðan árið 2000 en ég verð engu að síður að draga fram að það er margt í þeirri tillögu sem ég kann betur við og fellur betur að en það sem kemur fram í tillögunni frá fjórum hv. þingmönnum, tveimur frá Samfylkingu og tveimur frá Vinstri grænum, og hefur verið tíðrætt um. Það sem mér finnst eiginlega miður er það sem við greinum hér að sú tillaga er með öðrum hætti en til að mynda það sem formaður Samfylkingarinnar hefur sett fram í samtölum við aðra forustumenn. Fyrsti punkturinn sem ég ætla að koma að, ég kem að spurningunni á eftir, (Forseti hringir.) er að þessi umræða endurspeglar þann vanda sem við erum í, þ.e. forusta Samfylkingar og fyrrum forusta eru ekki nægilega samstiga í þessu máli.