141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:47]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Nú fer fram umræða um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og ég vil taka það fram í upphafi máls míns að umræðan hefur um margt verið málefnaleg og góð. Það sem er hins vegar vandamál við umræðuna er að hún fer fram á þeim tíma á kjörtímabilinu þegar við ættum í raun og veru að vera farin að búa okkur undir kosningar. Þingi ætti í rauninni að vera lokið og þingmenn farnir í kjördæmi sín að tilkynna kjósendum hvað það er sem þeir vilja breyta og bæta á næsta kjörtímabili. Við framsóknarmenn höfum lagt mikla áherslu á skuldamál heimilanna og uppbyggingu atvinnulífsins. Við höfum sagt að það sé forgangsverkefni að vinna bug á skuldavanda þjóðarinnar. Mörg heimili, fyrirtæki og í raun stór hluti millistéttarinnar stendur frammi fyrir því núna að lánin þeirra hækka og hækka, verðbólgan mælist yfir 4% og hefur því miður verið afar stöðug þar. Við teljum að hægt sé að afnema verðtrygginguna og teljum að það sé nauðsynlegt til að koma hér á eðlilegu lánafyrirkomulagi þar sem lánveitandi og lántakandi bera jafnt áhættuna.

Ég hef sagt opinberlega að þetta skipti gríðarlegu máli til að ná verðbólgunni niður. Við þurfum með einum eða öðrum hætti að koma á fyrirkomulagi þar sem allir aðilar, hvort sem þeir eru ríki, sveitarfélög, bankar, einstaklingar, lántakendur eða lánveitendur, stuðla að því að verðbólgunni sé haldið niðri. Þar skiptir kannski fyrst og fremst máli að koma á aga á rekstur ríkissjóðs. Við horfum upp á það núna að þau markmið sem ríkisstjórnin setti sér árið 2009, í skýrslu sem fjármálaráðuneytið gaf út og bar heitið Skýrsla um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009–2013, hafa ekki náðst. Þar var gerð greining á því hvaða hagvexti væri hægt að ná á Íslandi og það er dapurlegt að horfa upp á það nú í lok kjörtímabilsins, þegar svo mörg tækifæri eru til staðar á Íslandi, að hagvöxtur þessa árs er aðeins rétt um helmingur á við það sem stefnt var að. Reyndar var það einnig svo á árinu 2011 að þau markmið sem lágu fyrir þá sýndu að hægt væri að ná um 4,4% hagvexti á Íslandi en hagvöxturinn mældist aðeins rétt um 2%.

Við höfum heldur ekki náð þeim tökum á rekstri ríkissjóðs sem stefnt var að. Sem dæmi fór reksturinn um 80 milljarða króna fram úr sér á árinu 2011, reyndist um 80 milljörðum króna lakari en stefnt var að í fjárlagafrumvarpinu. Mér skilst að við séum á pari við Ungverjaland innan ríkja OECD þegar kemur að þeim mikla mun sem er á milli fjárlagafrumvarps og ríkisreiknings eða þegar fjárlagaárið er gefið út. Það er sæti sem við viljum alls ekki vera í.

Þetta eru mál sem ég hefði talið að væri miklu brýnna að ræða og ég vil nefna sérstaklega þann vilja fjárlaganefndar að koma á nýjum fjárreiðulögum. Eftir Icesave-deiluna hefur verið ágætissamhljómur um að breyta þurfi fjárlagaferlinu, við séum því miður einfaldlega að tapa of miklum peningum. Kerfið okkar er þannig að okkur tekst illa að halda þau markmið sem sett eru og staðreyndin er sú að sumir forstöðumenn stofnana ríkisins hafa leikið það árum saman að fara með stofnun sína fram úr fjárlögum vegna þess að þeir vita að þeir fá það bætt með einum eða öðrum hætti. Sérstaklega þegar kemur að kosningum er erfitt að horfa upp á mikilvægar stofnanir í fjárhagsvandræðum og þrátt fyrir að í stjórnsýslulögum séu ákvæði sem heimila ráðherrum að veita áminningar er sú heimild ekki nýtt.

Ég er líka þeirrar skoðunar að allt það sem heitir fjáraukalög þurfi að heyra sögunni til. Að minnsta kosti verðum við að haga málum okkar þannig að þau séu aðeins notuð í algjörum undantekningartilvikum, aðeins sé heimilt að beita þeim í ýtrustu nauðsyn þegar ófyrirséð atvik eins og náttúruhamfarir kalla á aukin útgjöld úr ríkissjóði. Ég held að það sé eina leiðin til að ná fram hinum nauðsynlega aga á rekstri ríkissjóðs, sambærilegum aga og Svíar hafa náð í sínu hagkerfi.

Það sem gleymist er að aðrar þjóðir hafa lent í svipuðum vandræðum og Íslendingar. Svíar stóðu frammi fyrir því fyrir um tveimur áratugum að ríkissjóður þeirra var afar illa rekinn. Þar höfðu ráðherrar fjárheimildir ekki ósvipað og ráðherrar í ríkisstjórninni hafa núna og engin leið var fyrir þingið að koma böndum á þau fjárútlát sem streymdu úr ríkissjóði. Í dag er staðan þannig að fáum eða engum dettur í hug að lofa fjármunum í verkefni, sem eru ekki til staðar. Þetta hefur hins vegar verið einhvers konar þjóðaríþrótt hér á landi. Þingmenn og sérstaklega ráðherrar koma og segjast ætla að setja peninga í verkefni, peninga sem ekki finnast í ríkiskassanum. Síðan er aukið í fjáraukalögum og jafnvel þegar lokafjárlög eru lögð fram dúkka upp háar fjárhæðir, fjárhæðir sem ríkisstjórnin hefur kannski samþykkt án þess að fyrir liggi heimild í fjárlögum.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er að þessi heimild er stjórnarskrárvarin, þ.e. enga fjárheimild má veita úr ríkissjóði nema heimild sé fyrir þeim í fjárlögum. Það var afar merkilegt þegar ég áttaði mig á því að hið svokallaða stjórnlagaráð hafði ákveðið að breyta þessu ákvæði, sérstaklega í ljósi þess að ekkert af því ágæta fólki sem þar sat hafði haft samband við okkur í fjárlaganefnd, ekki mig að minnsta kosti og mér er ekki kunnugt um að það hafi rætt við aðra fjárlaganefndarmenn, og spurt hvaða tilfinningar við hefðum fyrir því ákvæði sem er jú grunnur að fjárlagagerð hvers árs í stjórnarskránni.

Sú breyting sem var gerð sneri að því að aðeins fjármálaráðherra gæti óskað eftir auknum fjárheimildum. Í sjálfu sér gat ég verið sammála þeirri nálgun vegna þess að hún er ekki svo langt fjarri þeirri framkvæmd sem hefur verið á stjórnarskrárákvæðinu í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Af einhverjum ástæðum var samt búið að breyta því þannig í frumvarpinu frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að hvaða ráðherra sem er gat komið fyrir nefndina og óskað eftir auknum fjárheimildum. Það er þvert á allt það sem stefnt hefur verið að í fjárlaganefnd á undanförnum árum og hefði í raun þýtt að hvenær sem ráðherra sýndist sem svo að ráðast þyrfti í eitthvert verkefni án þess að fjárheimild væri fyrir því í lögum gæti hann komið til nefndarinnar og sagt við fjárlaganefndarmenn að það væri lífsnauðsynlegt að fá þessa heimild.

Við höfum því miður horft upp á það að þrátt fyrir að ýmsir forstöðumenn hafi farið fram úr fjárlögum og að ráðuneytin eigi að bera ábyrgð á þeirri framúrkeyrslu hunsa ráðherrar ríkisstjórnarinnar því miður þær heimildir sem þeir hafa. Litlar sem engar skýringar hafa fengist á því hvaða viðurlög þeir telja æskileg til að koma á hinum nauðsynlega aga.

Það sem er hins vegar verra og ég vil gera að umtalsefni er að eins og stjórnskipan landsins er uppbyggð er afar erfitt fyrir þingmenn, sérstaklega þingmenn sem eru í sama stjórnarflokki og viðkomandi ráðherra, að hafna þeim beiðnum sem koma frá ráðuneytunum. Það er afar erfitt vegna þess að hvort sem okkur líkar betur eða verr virðist vera krafa um það, og hún endurspeglast einstaka sinnum í fjölmiðlum, að þingmenn gangi í takt, þeir séu í rauninni ekki bundnir af eigin sannfæringu eins og kemur fram í 48. gr. stjórnarskrárinnar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.“

Að undanförnu, vegna þess að ég hef sérstaklega veitt því athygli, um leið og einhver þingmaður er á annarri skoðun en þeir ráðherrar sem sitja í ríkisstjórninni stökkva fjölmiðlar upp og hrópa og kalla: Þessi er ekki í takt við hina. Þetta er mikilvægt atriði og mikilvægara en margir gera sér grein fyrir. Þegar bankahrunið átti sér stað kom í ljós að ráðherrar landsins höfðu nánast, má segja, alræðisvald. Alþingi var hvort sem mönnum líkaði betur eða verr eiginlega valdalaust þrátt fyrir að þjóðin liti svo á að Alþingi hefði valdið. Ef við lítum á hina mikilvægu þrískiptingu ríkisvaldsins er það einfaldlega þannig að löggjafarvaldið, framkvæmdarvaldið og dómsvaldið eiga að tempra og í rauninni standa vörð hvert um annað. Þetta er lykilatriði í lýðræðisríki.

Fyrir ekki svo mörgum árum, þetta er smáútúrdúr, sáu menn í hendi sér að ekki gengi að sýslumenn hér á landi bæði rannsökuðu og dæmdu í málum. Jón Kristinsson, íbúi á Akureyri, lét reyna á þessa reglu fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Það er skondið að hugsa til þess að á þeim tíma dæmdi Hæstiréttur Íslands honum í óhag og í raun var mál manna að það fyrirkomulag sem væri á Íslandi væri bæði hagkvæmt og ódýrt og þar sem við værum fámenn þjóð í norðurhöfum yrðum við bara að sætta okkur við að haga málum með þessum hætti. Mannréttindadómstóll Evrópu sagði hins vegar: Þetta er ótækt, það fer gegn grundvallarmannréttindum í mannréttindasáttmála Evrópu að sami maður geti bæði rannsakað og dæmt í máli. Jón Kristinsson vann málið með glæsibrag og nú ræðir það ekki nokkur maður að þetta fyrirkomulag hafi verið hagkvæmt og ódýrt og það hafi verið betra fyrir Íslendinga að hafa þetta svona. Það urðu algjör sinnaskipti og breytt viðhorf manna gagnvart þessu fyrirkomulagi og að sjálfsögðu sjá menn það í hendi sér að dómari sem dæmir á grunni þeirra rannsóknargagna sem hann sjálfur hefur aflað getur ekki talist hlutdrægur. Þetta er lykilatriði í okkar lýðræðissamfélagi. Framkvæmdarvaldið og dómsvaldið verða að vera aðskilin með þessum hætti.

Því miður búum við við það hér á landi að það eru ekki nægilega skörp skil á milli framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins. Þetta var tekið sérstaklega fyrir í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þar sem farið var yfir að Alþingi væri því miður of valdalítið. Það eina sem hefur verið gert á þessu kjörtímabili til að bæta um betur er að hér var samþykkt þingsályktunartillaga með öllum greiddum atkvæðum um að vinna skyldi að því að efla löggjafarvaldið, á kostnað framkvæmdarvaldsins. Embættismannakerfið á Íslandi væri of sterkt og vald ráðherra of mikið. En hvort sem mönnum líkar betur eða verr hefur í sjálfu sér ekkert verið unnið með þessa þingsályktunartillögu. Við höfum horft upp á það í fjárlaganefnd að það stjórnarskrárbundna vald sem löggjafanum er veitt um að ákveða fjárheimildir hvers árs hefur ekki verið styrkt heldur veikt. Á sínum tíma, þegar hinir svokölluðu safnliðir voru færðir yfir til ráðuneytanna og í hina lögbundnu sjóði sem er aftur á móti stýrt af fulltrúum ráðuneytanna, var talað um að með því væri verið að koma í veg fyrir kjördæmapot og færa verklagið í faglegri farveg. Ég benti á það þá að verið væri að vinna gegn því markmiði að efla löggjafarvaldið, gegn því markmiði að efla Alþingi Íslendinga. Í raun þyrftum við frekar að stíga þau skref að efla nefndir, fjölga starfsfólki til að það væri hægt að vinna fjárlögin frá grunni á Alþingi. Það var mín skoðun.

Hvernig skyldi nú hafa tekist til? Nú eru flestir sammála um að þessi aðgerð hafi verið algjörlega misheppnuð. Það er erfitt að fá upplýsingar um það hvert peningarnir fara, það er erfitt að sjá einhvers konar faglegan rökstuðning fyrir því í hvaða verkefni fjármunir eru veittir og það fer gegn því markmiði sem fullyrt var að mundi nást, að framkvæmdin yrði gegnsærri. Þetta gerði til að mynda að verkum í minni heimabyggð að menningarsamningarnir, sem eru gríðarlega mikilvægir til að halda uppi menningarstarfsemi, listum og öllu því tengdu, höfðu verið skornir niður um meira en 40%. Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson steig fram og sagði að það hefðu verið gerð mistök og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson sem studdi þessa tillögu sagði einnig að ég hefði haft rétt fyrir mér í þessum efnum. Við hefðum í rauninni veikt starf fjárlaganefndar í staðinn fyrir að styrkja hana.

Í öllu Icesave-málinu urðum við vitni að því hvernig formenn stjórnmálaflokkanna gátu í rauninni stýrt þingflokkunum og öllum þeim þingmönnum sem vildu kynna sér málið á eigin spýtur var í raun haldið niðri. Ég held að þetta sé kannski einhver stærsta eina ástæðan fyrir því að svo margir þingmenn hafa yfirgefið Vinstri græna. Í rauninni var sagt við þá og því fylgt eftir af nokkrum fjölmiðlum að sá stjórnarskrárbundni réttur þeirra að vera eingöngu bundnir við eigin sannfæringu ætti ekki við.

Það sem gerðist hins vegar á þessu kjörtímabili er afar sérstakt. Við framsóknarmenn vorum á því og lögðum til þegar við fórum í kosningabaráttuna 2009 að það þyrfti einmitt að breyta stjórnarskránni til að efla Alþingi. Ég kom fram í auglýsingu þar sem ég rakti það ítarlega af hverju ég teldi nauðsynlegt að breyta stjórnarskránni. Í henni væri innbyggt óréttlæti sem gerði að verkum að framkvæmdarvaldið hefði betri stöðu gagnvart löggjafarvaldinu en menn ætluðu.

Fyrstu mistökin sem voru gerð í ferlinu varðandi stjórnarskrármálið — og það er nauðsynlegt að rekja þetta því að það lýsir af hverju við náum ekki að klára málið — var að breyta fyrirkomulaginu á því hvernig við kysum til stjórnlagaþings.

Ég hef verið fylgjandi persónukjöri og óttast það ekki eins og margir þingmenn sem vilja að fáir aðilar fái að ákveða hvort þeir haldi hér setu eða ekki. Ég hef aldrei verið hræddur við fjöldann og tel að þingmenn eigi að hafa sem flesta á bak við sig. Það er mín bjargfasta sannfæring. En einhverjum datt í hug að það væri sniðugt að fara í persónukjör á allt öðrum forsendum en ég hafði ímyndað mér, á allt öðrum forsendum en við höfum séð í nágrannaríkjum okkar. Flest ríki í Evrópu hafa persónukjör og telja það lýðræðislegt. Í þessu persónukjöri gerðist því miður að verulega vantaði upp á það að dreifing þeirra sem áttu að taka sæti á þinginu væri jöfn. Þá vil ég sérstaklega taka fram að fulltrúa landsbyggðarinnar skorti tilfinnanlega í stjórnlagaráð. Þeir sem voru kosnir voru verðugir fulltrúar og stóðu sig með eindæmum vel, það vil ég taka fram. En gott og vel, það var búið að kjósa til stjórnlagaþings og þrátt fyrir að maður væri ekki alveg ánægður með framkvæmdina var þetta niðurstaðan og ég taldi mikilvægt í ljósi þess að illa hafði gengið að breyta stjórnarskránni að við mundum sjá hver afurðin yrði á þessu stjórnlagaþingi.

Hins vegar kom í ljós að þessi framkvæmd sem var alfarið á ábyrgð stjórnarmeirihlutans reyndist gölluð. Hæstiréttur úrskurðaði að kosningin væri ógild, og það er mikilvægt að menn átti sig á muninum á því þegar Hæstiréttur úrskurðar og þegar hann dæmir vegna þess að þá starfar Hæstiréttur í raun sem æðsta stjórnsýsluvald en dæmir ekki sem æðsti dómstóll landsins. Síðan voru áhöld um það hvort hægt væri að kæra úrskurð Hæstaréttar til héraðsdóms og svo áfram til Hæstaréttar, en mér fannst þetta eingöngu vera til marks um þau flausturslegu vinnubrögð sem höfðu verið og hafa verið einkennandi fyrir þetta Alþingi.

Þá stóðum við sem vildum breyta stjórnarskránni frammi fyrir því vandasama verkefni að taka ákvörðun um það hvort halda skyldi áfram með verkefnið. Ég taldi að þrátt fyrir þessi skakkaföll væri rétt að halda áfram. Við værum að fara í gegnum urð og grjót og jafnvel ansi mikið upp í mót en þótt skrjóðurinn hökti þyrftum við kannski að halda áfram.

Þess vegna var ég samþykkur því að hið svokallaða stjórnlagaráð yrði sett á laggirnar. En — og þetta er mikilvægt — ákveðið var á Alþingi að stjórnlagaráð yrði skipað með því skilyrði að eðli þess yrði annað en stjórnlagaþings og að tillögur stjórnlagaráðs, sem yrðu væntanlega í samræmi við þjóðfundinn og tillögu stjórnarskrárnefndar, kæmu til Alþingis og yrðu ræddar þar efnislega. Þetta var mjög mikilvægt. Þingmenn Hreyfingarinnar voru andvígir þessu fyrirkomulagi, töldu að það væri ófært annað en að fara með þá afurð sem kæmi frá stjórnlagaráði beint í þjóðaratkvæðagreiðslu og að þjóðin mundi þar bara ákveða, án þess að fram færi efnisleg umræða á Alþingi, hvora stjórnarskrána hún vildi.

Ég hef verið þeirrar skoðunar að þótt ég hafi viljað breyta núverandi stjórnarskrá væri ansi margt í henni sem mætti heldur betur notast við. Þá vil ég sérstaklega taka fram mannréttindakaflann sem var breytt árið 1995. Hann er að mínu mati vel gerður, hefur reynst Íslendingum afar vel og í samræmi við mannréttindasáttmála Evrópu, mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og hefur verið í rauninni verið túlkaður í samræmi við þann sáttmála og þá yfirlýsingu.

Þetta skilyrði var hins vegar svikið að mínu mati vegna þess að ríkisstjórnin heyktist á því að taka málið til efnislegrar meðferðar þegar stjórnlagaráð hafði skilað af sér drögum að breyttri stjórnarskrá. Það fór engin efnisleg umræða fram hér um málið svo mánuðum skipti. Síðan gerist það því miður — og ekkert því miður, kannski var það bara óhjákvæmilegt — að ríkisstjórnin missti meiri hluta sinn og þurfti að stóla á að Hreyfingin meðal annars mundi verja hana vantrausti ef til þess kæmi. Í einhvers konar samningaviðræðum virðist mér að skilyrði sem Hreyfingin hafi sett, og það hefur komið fram opinberlega og í fjölmiðlum, hafi verið að klára einmitt stjórnarskrármálið.

Þar með var ákveðið að spyrja þjóðina hvort hún vildi leggja drög stjórnlagaráðs að stjórnarskrá til grundvallar eða þá gömlu. Ég benti á í ræðustól Alþingis að í fyrsta lagi væri verið að svíkja samkomulagið um að Alþingi mundi taka tillögur stjórnlagaráðs til efnislegrar meðferðar. Í annan stað væri í rauninni verið að stilla upp kostum sem ekki væri hægt að taka mark á, hvor sem yrði ofan á. Ef þjóðin hefði samþykkt að leggja gömlu stjórnarskrána til grundvallar hefðu menn samt verið á þeirri skoðun að mínu mati að henni þyrfti að breyta og bæta hana að einhverju leyti. Ég sagði í þessum ræðustól að mér virtist sem svo að ekki væri verið að taka skref fram á við heldur aftur á bak og að hugsanlega mundi þessi aðgerð ein og sér eyðileggja málið.

Síðan eins og alþjóð veit var hent inn alls kyns spurningum; um þjóðkirkjuna, um auðlindaákvæðið, um persónukjör. En þegar menn leggja fram slíkar spurningar verður að útfæra þær nánar. Um hvernig persónukjör er verið að ræða? Ég vil persónukjör, eins og ég sagði áðan, en mér er ekki sama um hvernig það er útfært. Ég vil ekki að það sé útfært eins og gert var þegar kosið var til stjórnlagaþings. Það gerðist hins vegar sem ég var mjög glaður að sjá að meiri hluti landsmanna vill hafa ákvæði um þjóðkirkjuna í stjórnarskránni. Það var skýrt, sem betur fer. Ég var líka glaður að sjá að menn vildu nýtt auðlindaákvæði. Það hefur verið mín bjargfasta skoðun að við þurfum að setja nýtt auðlindaákvæði. Ég held reyndar að við séum að nálgast lausn á því máli og ég tel að það gæti verið gott fyrir framtíðina, fyrir þau stjórnvöld sem taka við að loknum kosningum, að þetta mál sé frá og hvet þá sem standa í samningaviðræðum að reyna að ná saman.

Þegar tillögurnar voru hins vegar bornar á borð fyrir okkur í þingflokknum fyrir ekki svo löngu síðan og ég gerði mér grein fyrir því að breyta ætti eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar gat ég varla orða bundist. Þar voru tillögur sem skertu verulega þau grundvallarmannréttindi sem eru nú til staðar í stjórnarskránni. Bændur hafa allt frá Grágás til dæmis haft þann rétt að geta veitt út að netlögum eða haft þann eignarrétt út að netlögum og sá réttur var stjórnarskrárbundinn í stjórnarskránni árið 1874, ég vona að ég fari rétt með. En með einu pennastriki, án þess að það væri útskýrt á nokkurn hátt eða rökstutt, átti að afnema þennan rétt samkvæmt þessum tillögum. Það var einnig talað um að hægt væri að breyta með einum eða öðrum hætti því hversu langt eignarréttur landeigenda næði ofan í jörðina. Þetta hefur verið mikið hitamál í marga áratugi, löng dómaframkvæmd um hvernig beita skuli þessu eignarréttarákvæði, en ég gat ekki séð að það væri nokkur rökstuðningur fyrir því hvernig ætti að breyta ákvæðinu, af hverju ætti að breyta því eða gefnar einhverjar leiðbeiningar fyrir dómstóla að dæma um öll þau fjölmörgu ágreiningsmál sem hefðu óhjákvæmilega sprottið af þessari breytingu. Mér þótti það miður þegar ég tók eftir því að allar þær breytingar sem var hent inn í málið á síðustu stundu voru algjörlega órökstuddar.

Ég vil að lokum taka fram að sú umræða sem hefur farið hér fram um stjórnarskrána hefur verið með ágætum og ég er sérstaklega ánægður að sjá að stjórnarliðar hafa tekið þátt í umræðunni. Það er svolítið ankannalegt að hlusta á ýmsa fjölmiðla halda því fram að hér sé málþóf þegar stjórnarandstaðan hefur í raun ekki í miklum mæli tekið til máls um stjórnarskrármálið. Ég nefndi það áðan að ég taldi að þegar málið var sett í þjóðaratkvæðagreiðslu hefði það ónýst. Ég er sannfærður um að það sé því miður staðreynd. En að henda inn sem breytingartillögu núna allri stjórnarskránni án rökstuðnings, án ítarlegrar greinargerðar, er að mínu mati ótækt. Ég held að hv. þm. Magnús Orri Schram haft rétt fyrir sér, því miður, þegar hann lýsti því með þeim orðum, ef ég man rétt, að verið væri að senda einhvers konar tundurskeyti inn í málið í heild sinni. Það eru margir þingmenn á þeirri skoðun að hægt sé að ná ágætissamkomulagi, allir af vilja gerðir til að ná því, en þegar öll stjórnarskráin er undir með öllu því sem henni tilheyrir er ég ansi hræddur um að sú umræða muni óhjákvæmilega og af eðlilegum orsökum standa lengur en hún hefði þurft að standa ef við hefðum bara verið að ræða þær tillögur sem formenn stjórnarflokkanna ásamt hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni lögðu til. Þær eru um margt ágætar jafnvel þótt ég hefði nú haft þær að einhverju leyti öðruvísi, en gott og vel, það má skoða þær og ræða.

Að lokum vil ég segja að á meðan við ættum núna að vera að einbeita okkur að því að hitta kjósendur, hitta fólkið í landinu, fara um kjördæmin og kynna stefnumál okkar, eru flestir þingmenn bundnir hér í ræðustól Alþingis. Það er því miður til marks um það verklag og þau vinnubrögð sem hafa verið hér við lýði og við þurfum nauðsynlega að breyta. Rætt hefur verið um hinar svokölluðu fimm mínútna ræður en ég benti á það á sínum tíma að þegar menn ákváðu að taka upp fimm mínútna ræður, styttri ræðutíma, væru menn í raun að fórna hinni efnislegu umræðu fyrir einhvers konar kappræður. Kappræður á Alþingi eiga ekki að eiga sér stað. Við eigum að fara efnislega, vandlega yfir mál. Það var talið að þá yrði umræðan einhvern veginn skemmtilegri, en því miður tel ég að þessi aðgerð að breyta þingsköpum á þennan hátt árið 2008, í tíð Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar, hafi verið mistök. Það sé í rauninni betra gamla fyrirkomulagið þegar menn gátu úttalað sig um mál í eitt skipti þó að þær ræður hafi verið langar.

Ég hef sagt það sem ég vil segja um þetta stjórnarskrármál, ég mun hlusta (Forseti hringir.) að sjálfsögðu á ræður annarra þingmanna og kynna mér þeirra sjónarmið og svo sjáum við til hvort (Forseti hringir.) ekki náist samkomulag um einstaka þætti. Það verður þá væntanlega gengið til atkvæða um það innan skamms.