149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:39]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ætla að halda áfram þar sem frá var horfið í minni síðustu ræðu þar sem ég var að ræða um lagalega fyrirvarann og fleira því tengt og náði ekki að klára.

Ég hafði orð á því í þeirri ræðu í nótt að sú gjörð af hálfu íslenskra stjórnvalda að setja lagalegan fyrirvara væri í raun orðin tóm. Maður getur ekki innleitt Evrópureglur á sviði orkumála, í þessu tilviki þriðja orkupakkann, en í hinu orðinu sagt að reglurnar gildi ekki hér á landi. Það er ekki bæði sleppt og haldið. Þú getur ekki bæði átt kökuna og étið hana. Og þó einstök lönd setji einhverja fyrirvara í lög þá falla þau lög um sjálf sig um leið og reynir á þau ef þau ganga í berhögg við Evróputilskipanirnar.

Þetta er svipað og ef bæjarstjórn í afskekktu bæjarfélagi ályktaði og samþykkti að umferðarlög tækju ekki gildi í bænum því þar væri enginn vegurinn. Auðvitað virkjast umferðarlögin um leið og bifreið kemst til bæjarins og skiptir þá engu hvaða skoðun bæjarstjórnin hafði um þetta atriði, jafnvel þótt lögreglustjórinn í umdæminu hefði lýst sig sammála bæjarstjórninni að umferðarlögin ættu ekki við í bæjarfélaginu einfaldlega vegna þess að þar væri engin bifreið og hugsanlega enginn vegur. Og jafnvel þótt einhver ráðamaður í ríkisstjórninni heimsækti bæjarfélagið og teldi að umferðarlögin gætu alls ekki átt við þarna vegna þess að þarna væri enginn vegur eins og allir gætu séð, breytir það því ekki að um leið og eitthvert atvik verður í þessu bæjarfélagi sem getur tengst umferðarlögunum, þá virkjast lögin. Um leið og einhver ágreiningur kemur upp, einhverjum dettur í hug að vísa í umferðarlögin í einhverju tilviki, þá uppgötvar þessi bæjarstjórn samstundis að hún getur ekki undanþegið sig þessum lögum. Þá rennur kaldur veruleikinn upp fyrir bæjarbúum, þrátt fyrir þessar yfirlýsingar og samþykkt bæjarstjórnar og góð ummæli hinna ýmsu manna er ekkert undan því vikist að lögin gilda. Um leið og fyrsti bílstjórinn lendir í árekstri þá stoða slíkar viðbárur lítt.

Þegar öllu er á botninn hvolft, herra forseti, þá gilda hér engir fyrirvarar. Þeir eru í besta falli spaugilegar yfirlýsingar og einungis til innanlandsbrúks. Í því sambandi veltir maður ýmsu fyrir sér: Af hverju er verið að tala um lagalegan fyrirvara eins og þeir skipti einhverju máli? Af hverju er verið að tala um þetta? Eins og ég hef áður nefnt lítur þetta út sem einhvers konar orðskrúð og þá helst í þeim tilgangi að slá ryki í augun á fólki, að þetta orðalag um lagalegan fyrirvara skipti einhverju máli, sem það gerir ekki í raun. Getur verið að slíkt orðskrúð hafi átt að nota til að troða þessu ofan í þjóðina? Það gerir það ekki. Það gildir ekki í raun því annaðhvort innleiða menn regluverkið eða ekki. Ef það er ekki gert þá er aðeins ein leið fær, herra forseti, að fara með málið að nýju fyrir sameiginlegu EES-nefndina.

Þessi aðferð gengur einfaldlega ekki upp. Hún gengur upp svo lengi sem ekki reynir á hana og enginn ágreiningur verður uppi og enginn ber þetta undir rétt yfirvöld. Á meðan enginn aðhefst neitt. En eigum við að taka þá áhættu, herra forseti? Eigum við bara að bíða og sitja og taka þá áhættu þegar EES-samningurinn, 102. gr., vísar veginn um hvað við eigum að gera í þessu máli?

Það er ekki hægt að innleiða regluverkið og segja svo heima við að maður ætli ekki að gera það. Hvers lags trakteringar eru þetta? Og svo er vísað til þess að einhverjir karlar úti í Evrópu skilji okkur voðalega vel og séu sammála um að ekki sé unnt að leiða rafmagn frá Íslandi nema sæstrengur sé til staðar. Þetta er augljós staðreynd.

Leiðin til að undanþiggja okkur þessum orkupakka er að sækja um undanþágu fyrir sameiginlegu EES-nefndinni sem er hinn eðlilegasti hlutur í heimi að gera. Það er leiðin og hún er í samningnum. Og svo segja galvaskir stjórnarliðar hérna í nótt og í gærkvöldi að svo sannarlega munum við nota 101. gr. samningsins. Svo sannarlega munum við gera það þegar þörf verður á. Og hvenær er þörf?