151. löggjafarþing — 107. fundur,  4. júní 2021.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[13:31]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég er eiginlega dálítið gáttuð. Ég veit ekki hvernig ég á að bregðast við þessu en ég skal reyna. Ég þekki hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur ekki af neinu öðru en góðu og oftast hefur samstarfið verið mjög gott í nefndinni. Ég veit ekki hvað hún á við með því að segja að þetta hafi ekki verið tekið út í ágreiningi. Ég skil ekki hvernig er hægt að túlka hávær mótmæli fólks í nefndinni, „vinsamlegast ekki taka málið út, getum við, gerðu það, klárað þetta mál“, þannig að það sé einhver samstaða um það. Mér er annt um þetta mál, ég hef setið í þessari þingmannanefnd í langan tíma og mig langar ekki í neitt annað en að afgreiða þetta mál í sátt. Hvernig er hægt að túlka það að taka málið út úr nefnd þrátt fyrir slíka beiðni sem eitthvað annað en að afgreiða það í ágreiningi? Ég skil þetta ekki. Var hv. framsögumaður sofandi?