131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[22:54]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Vissulega tek ég undir það hjá hv. þingmanni að það er fullt af frambærilegu efni hjá einkastöðvunum. Það eru framleiddir fínir þættir hjá Stöð 2, við getum nefnt Sjálfstætt fólk og Einu sinni var, ég tek undir þetta heils hugar. Hins vegar hafa þessir miðlar ekki neina skyldu til að framleiða efni af þessu tagi. Ríkisútvarpið hefur ákveðna skyldu samkvæmt lögum í þessu tilliti, og ekki bara að framleiða efni af þessu tagi, heldur hefur Ríkisútvarpið skyldu til að geyma, til að varðveita. Það hefur skyldur umfram einkamiðlana hvað þetta varðar. Það er það sem ég hef verið að segja. Við getum tryggt að menningararfurinn verði til hjá sjónvarpsstöð sem við sem löggjafi náum yfir.

Eins og ég segi, ég kasta engri rýrð á það sem gert er hjá einkamiðlunum, sannarlega ekki, þar er margt mjög vel gert. (Gripið fram í: Frábært.) Við erum hins vegar hér að fjalla um stofnunina sem starfar samkvæmt lögum um ríkisútvarp. Um þá stofnun gilda ríkari skyldur — og við höfum viljað hafa það þannig, löggjafinn — en um miðla á einkamarkaði. Ég er ekki til í að breyta því. Ég vil að Ríkisútvarpið hafi skyldur umfram einkamiðla og ég tel að við getum ekki sett neinar lagaskyldur á einkamiðlana sem við getum gert á stofnun sem er í eigu hins opinbera, sem er í eigu þjóðarinnar.

Varðandi síðan seinna atriðið í máli hv. þingmanns, þegar hann vísar til þess að ég hafi sent hér út ákall til ríkisstjórnarinnar um að gera eitthvað þegar allt var komið í hnút hjá Ríkisútvarpinu fyrir skemmstu, var það vissulega ákall til menntamálaráðherra um að hlutast yrði til um málefni stofnunarinnar þegar ljóst var að 93% af starfsmönnum sem mætt höfðu á starfsmannafund lýstu vantrausti á útvarpsstjóra. Þar með var stofnunin óstarfhæf. Og í hvers skjóli starfar útvarpsstjóri? Í skjóli menntamálaráðherra sem ræður hann lögum samkvæmt.

Ég er hins vegar ekki sammála því að svo eigi að vera. Hv. þingmaður verður bara að lesa frumvarp Vinstri grænna um Ríkisútvarpið til að sjá hvernig ég vil ráða útvarpsstjóra.