135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

vistunarmat.

[11:51]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að draga það fram hér, eins og ég var að gera í ræðu minni, að þetta er ekki eitthvert nýtt fyrirbæri, hókus pókus — vandinn leystur, sem nú hefur átt sér stað í kerfinu. Það voru sett lög hér á síðasta kjörtímabili sem allir flokkar samþykktu til að ná þessum árangri þannig að allir flokkar eiga hlut í þeim góða árangri.

Kerfið er þannig núna að ekki er hægt að leggja fram beiðni um vistunarmat til þess að fara á hjúkrunarheimili nema félagsleg heimaþjónusta, heimahjúkrun og önnur úrræði sem eiga að styðja fólk til dvalar í heimahúsi, séu fullreynd. Það var ekki þannig áður. Á sama tíma sáum við að samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar minnkaði meira en helmingur sveitarfélaga félagslega þjónustu fyrir aldraða. Stór sveitarfélög eins og Kópavogur, Reykjanesbær, Garðabær, Seltjarnarnes, Akranes, Ísafjarðarbær o.fl. drógu úr þjónustu við aldraða. (Forseti hringir.) Það verður að taka á þessu, virðulegi forseti, af því að það er ekki boðlegt að setja fólk á hjúkrunarheimili ef ekki er búið að fullreyna heimaþjónustuna í sveitarfélaginu.