143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[11:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Afstaða stjórnarandstöðunnar hér í dag er með öllu óskiljanleg. Þegar málið var samþykkt hér á síðasta ári, um 3 prósentustiga hækkun til samræmis við verðlagshækkanir á þessu ári, var stjórnarandstaðan meira og minna öll á móti, taldi það alveg fráleitt að hafa þau vísitöluáhrif með þeirri hækkun sem í stefndi. Við því var brugðist með því að lækka öll gjöldin til baka undir verðbólguviðmið Seðlabankans.

Nei, þá er setið hjá. (Gripið fram í: Nei, ekki …) Við lækkunina. Öll þau gjöld sem hér er um að ræða, sem hækkuðu um 3 prósentustig, eru lækkuð til baka um heilt prósentustig þannig að hækkunin nemur einungis 2 prósentustigum og því var lofað að það mundi gilda út kjörtímabilið. Þá er komið hér með einhverjar hundakúnstir og reiknað út að fyrir meðalmanninn þýði það bara 150 kr. á ári sem sé ekki neitt, en í hinu orðinu er því haldið fram að það skipti öllu þegar komugjald á heilsugæsluna hækkar um 200 kr.

Þessi málflutningur stenst enga skoðun (Forseti hringir.) og er til vansa fyrir stjórnarandstöðuna. En skilaboðin sem eftir standa eru þessi: Stjórnarandstaðan stendur ekki með gjaldalækkunum fyrir fólkið í landinu. (Gripið fram í.)