144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[14:00]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Nú er þetta að teiknast mjög skýrt upp. Það er einfaldlega þannig að það á að taka mark á verkefnisstjórn 2, eða taka hennar mati, en gleyma svo öllu sem á eftir kemur. Í lögum um rammaáætlun er ekki gert ráð fyrir því að það sé bara verkefnisstjórn 1 og svo 2 og svo búið. Það eru margar verkefnisstjórnir sem bíða þess að vinna áframhald og sigta úr bið í virkjun og vernd. Það er eðli rammaáætlunar.

Ef hæstv. ráðherra ætlar að hleypa því þannig í uppnám að næstu verkefnisstjórnir sem á eftir koma hafi kannski ekkert um málið að segja held ég að við ættum bara að stoppa núna. Við skulum ekki vera að eyða pening í að láta fólk vinna eitthvað sem skiptir svo engu máli. Það er bara fullkomið rugl.

Það voru hennar ráðuneyti og samflokksmaður fyrr í þessu sama ráðuneyti sem komust að þeirri niðurstöðu (Forseti hringir.) að Hvammsvirkjun væri sú eina sem væri lögleg áfram út af meðferð verkefnisstjórnarinnar og ég spyr: Er hún sem sagt á öðru máli?