149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:36]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir afskaplega góða ræðu sem tengist einmitt inn á mína næstu ræðu, það er þessi framtíð sem við sjáum fyrir okkur. En í ræðunni minntist þingmaðurinn á þessa fyrirvara, þessa lofsamlegu fyrirvara. Ég held ég verði eiginlega að koma aðeins inn á þetta mál þar sem tveir þingmenn, sem eru stjórnarliðar, eru í salnum og koma aðeins inn á lög sem heita á íslensku samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið.

Það er búið að tala um að hér fari allt í uppnám ef við förum þessa leið sem við erum að tala um. En við nánari lestur þessa skjals þá fjallar skjalið í einu og öllu, þegar kemur að meðferð mála, um að þetta sé gert í góðri sátt, jafnvel þó að upp komi ágreiningur og þó að við þurfum að senda það aftur til nefndarinnar, þetta snýst allt um að gera í góðri sátt og ná niðurstöðu sem allir geta unað við, þ.e. að ef við teljum okkur ekki geta innleitt þessa gerð, eins og menn virðast vera sammála um, þá ættum við að gera það samkvæmt þessari leið.

Mig langar til að fá aðeins sjónarmið hv. þingmanns á því ef við skoðum 99. gr. í lögum um Evrópska efnahagssvæðið þá segir, með leyfi forseta, í 3. mgr.:

„Á þeim tíma, sem líður fram að töku ákvörðunar í ráði Evrópubandalaganna, skulu samningsaðilar, í samfelldu ferli upplýsingaskipta og samráðs, ráðgast hver við annan í sameiginlegu EES-nefndinni að beiðni einhvers þeirra á öllum tímamótum á leið að endanlegri töku ákvörðunar.“

Þannig að það má vísa þessu aftur til nefndarinnar. Það er ekki endanleg ákvörðun (Forseti hringir.) um að senda þetta hingað heim í hérað til að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara. Hvert er álit hv. þingmanns á þessu?