131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[22:37]

Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil svara félaga mínum og vini, hv. þm. Halldóri Blöndal, eftirfarandi: Ef við ætlum að fara eftir höfðatölum erum við alveg tilbúnir í það á höfuðborgarsvæðinu en ég er ekki svo ósanngjarn að ég hafi beðið um það. Auðvitað þarf að tengjast því og tengjast uppsprettu teknanna sem fara til vegagerðar. Ef hann er að tína hér upp verður hann að fara með rétt mál, hann verður að lesa rétt á þetta blað, hæstv. forseti. Það er alveg lágmarkið. Það sem varðar Kópavog fer í Arnarnesveg og hann getur lesið á blaðinu hvað það er mikið. Reykjanesbraut er síðan tengi- og stofnbraut í gegnum bæði Kópavog, Garðabæ, Hafnarfjörð og Reykjavík.

Að lokum, til að upplýsa hv. þingmann, þá er búið að leggja allar tengi- og stofnbrautir á Akureyri sem hægt er að leggja og meira að segja upp í Hlíðarfjall í 500 metra hæð.