139. löggjafarþing — 108. fundur,  11. apr. 2011.

fjölmiðlar.

198. mál
[15:54]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að fagna almennt þeirri réttarbót sem hér er á ferðinni fyrir mikilvæga fagstétt á Íslandi. Það er afskaplega mikilvægt að stéttinni sé skapað jafnskýrt og gott lagaumhverfi og verið er að gera með þessum fjölmiðlalögum. Það er mikilvægt að skapa fjölmiðlum góðar aðstæður í íslensku samfélagi til starfa og aðhalds fremur en að leggja stein í götu þeirra. Hér er verið að fara fram með mjög merkan bálk hvað varðar sjálfstæði ritstjórna og ekki síst hvað varðar verndun heimildarmanna. Ég vil líka tala um nærgætni fjölmiðla gagnvart yngsta lesenda- og áhorfendahópnum sem eru vitaskuld börn. Þetta er til framfara. Hér þarf vitaskuld að taka á eignarhaldi og aðkomu RÚV að auglýsingamarkaðnum en það er í ferli og er framtíðarmúsík sem við skulum huga að á næstu mánuðum.