143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:16]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þetta svar. Mikið er talað um að þeir efnameiri séu að fá lungann af þeim aðgerðum sem hér er um að ræða, hagnist mest. Samt hefur komið fram að um það bil 50% upphæðarinnar fara til fólks sem hefur 6 milljónir í heimilistekjur á ári eða svo, sem eru tveir ASÍ-félagar. Ekki trúi ég því að hv. þingmaður telji þá til ríkari manna landsins. 60% eru með undir 8 milljónum í heimilistekjur og eru þess vegna eins og tveir BSRB-félagar eða eitthvað slíkt. En í 110%-leiðinni fékk 1% heimila helming alls fjár sem var varið til niðurgreiðslu skuldanna, 20 milljarða kr. Dæmi eru um að menn sem voru með 2 milljónir á mánuði hafi fengið meira en 50 milljónir í afskriftir. Dæmi voru um einstaklinga sem fengu 100 milljónir afskrifaðar á heimili. Ég spyr um það jafnræði sem var uppi á þeim tíma af hendi fyrrverandi (Forseti hringir.) ríkisstjórnar, reyndar í boði bankanna.