144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:30]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að taka undir þessa hluttekningu með hlutskipti forseta. Það er full ástæða fyrir þingmenn að undrast það hvaða mál er verið að ræða hér og engin ástæða fyrir hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur að gera athugasemdir við það. Staðan er sú að hæstv. umhverfisráðherra, sem hefur því miður þurft að víkja af fundi, hefur boðað að ríkisstjórnin hafi samþykkt á fundi á föstudaginn breytingartillögu sem þó kann að vera að sé ekki stjórnartillaga heldur muni koma fram með einhverjum öðrum hætti. En hún hefur ekki komið fram. Ekki nóg með það heldur hefur þingmaður Framsóknarflokksins og hæstráðandi í atvinnuveganefnd fyrir hans hönd, hv. þm. Páll Jóhann Pálsson, kallað hér yfir salinn í kvöld að þessi breytingartillaga komi ekki fram. Þar af leiðandi stendur hér í þingsalnum, virðulegur forseti, orð gegn orði. Það verður auðvitað að vera alveg skýrt. (Forseti hringir.) Hefur Hagavatnsvirkjun verið afturkölluð (Forseti hringir.) af Framsóknarflokknum eða ekki?