145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

dagsetning kosninga.

[15:04]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég minnist þess að fyrr í vetur eða í vor komst hæstv. fjármálaráðherra þannig að orði í ræðustól að nauðsynlegt væri að við tækjum okkur öll saman um að byggja aftur upp traust í þjóðfélaginu. Ég held að það hafi verið í umræðu um það þegar tryggingafélögin höfðu gerst mjög frek til fjárins og deilt út háum arðgreiðslum. Ég er mjög sammála því sem kom fram hjá ráðherranum að mikið liggur á því að við reynum öll að byggja upp traust í þjóðfélaginu.

Miklar vendingar urðu í þinginu og í stjórnmálunum fyrir fáeinum vikum. Þá var fólk hér fyrir utan, mikill mannfjöldi, sem krafðist þess að boðað yrði til kosninga og að miklar vendingar yrðu hér í húsinu. Þá sagði hæstv. ráðherra að ætlunin væri að stytta kjörtímabilið um eitt þing. Ég skil það þannig, virðulegi forseti, að það þýði að kjósa þurfi fyrir fyrsta þingdag sem á að vera annan þriðjudag í september. Mér finnst mikið liggja við, bæði til að við treystum hvert öðru og líka til þess að fólk treysti okkur hér inni, að það fari nú að komast á hreint hvað gera á í þessum málum og hvað það þýddi þegar hæstv. ráðherra sagði að stytta ætti kjörtímabilið um eitt þing. Þýðir það, eins og ég skil það, að næsta þing, sem ég held að verði það 146., verði sett eftir að ný ríkisstjórn hefur tekið við völdum, þegar nýtt þing situr hér?