149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:55]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum ágæta ræðu sem hverfist svolítið um þetta mál; hverju sætir það að um svo stórt mál sem ætti ekki, og gerir það ekki, að hverfast um einhverjar flokkspólitískar línur — þetta er ekki mál sem hagsmunir Framsóknarflokksins á Íslandi hverfast um að keyra í gegn, eða Sjálfstæðisflokks. Þetta varðar hagsmuni allrar þjóðarinnar. Það er ástæðan fyrir því að menn úr ólíkum flokkum með ólíkan stjórnmálabakgrunn koma að málinu og lýsa því yfir að hér skuli fara varlega.

Það er fræðigrein sem er mikið notuð á mínum öðrum starfsvettvangi sem heitir upp á enska tungu „Crew Resource Management“, eða áhafnasamstarf, stundum verið útlagt sem „Company Resource Management“ á enska tungu, sem tekur þá til alls fyrirtækisins sem fólk vinnur hjá. Ég álít að þau fræði sem þar eru kennd og eru notuð og eru áratugagömul og hafa verið í þróun, eigi við á vinnustöðum þótt þeir séu ekki tengdir flugi. Þar snýst málið um að finna rétta leið og örugga leið. Hún snýst ekki um að halda einhvers konar valdajafnvægi eða um að sýna mátt sinn í ákvarðanatöku. Eða hver mundi vilja vera um borð í flugvél á 800 km hraða þar sem flugstjórinn tæki ákvarðanir sínar á þeim forsendum að þær hverfðust um það að sýna vald hans? Það er aldrei góð meðferð á valdi.