149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:41]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa ræðu. Þessi ræðuröð hans, „Og hvað svo?“, hefur verið mjög upplýsandi og væntanlega mest upplýsandi fyrir þá sem fylgjast með þessari umræðu hér utan salar vegna þess að hv. þingmaður hefur dregið upp skýra og einfalda drætti á mannamáli.

En ég hnaut svolítið um það sem hann sagði í síðasta andsvari sínu, þ.e. að við þyrftum að standa vörð um fyrirtæki sem þjónusta stóriðju. Þá dettur mér í hug að hér eru fyrirtæki, fleiri en eitt og fleiri en tvö, sem hafa bæði hannað og framleitt róbóta fyrir álver, eða þjarka, og selt í álver í nánast öllum heimsálfum. Ég tek undir með hv. þingmanni að það yrði sjónarsviptir að því ef slík starfsemi myndi leggjast af.

Nú höfum við Miðflokksfólkið ekki talað mikið um sæstreng út af fyrir sig en auðvitað hangir skugginn af honum yfir þessari umræðu, vegna þess að það er búið að gylla svo gríðarlega fyrir fólki hvaða áhrif til góðs slíkt gæti haft. En mig langar aðeins að biðja hv. þingmann að fara yfir það af því að nú er það næsta víst að virkjun á borð við Kárahnjúkavirkjun þarf að liggja fyrir áður en sæstrengur gæti komist á koppinn. Og spurningin er hvort og hvar hv. þingmaður sjái slíka virkjun fýsilega og gerlega.