131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[18:30]

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki farið ofan í þá útreikninga sem hv. þingmaður ræðir hér og félagi minn úr kjördæminu, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, fór yfir. Ég er spurður að því hvort gerð hafi verið mistök við gerð fjárlaga. Það er nú svo að það eru fjárlögin sem ráða. Vegáætlun er áætlun en fjárlög hverju sinni ráða hversu mikið fjármagn fer til vegamála og sérhverra mála sem um ræðir. Ég átta mig því ekki á spurningunni og tel að ekki sé raunhæft að tala um mistök. Þetta er bara ákvörðun hverju sinni, fjárlögin ráða hversu mikið fé fer til vegamála. Málið er einfaldlega þannig.