135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[12:14]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Orð hv. þm. Helga Hjörvars um aðskilnaðarkröfu frumvarpsins renna stoðum undir þau orð mín að skortur á samkeppni á þessum markaði og ákall markaðsaflanna um að auka samkeppni sé öðrum þræði hvatinn að því að þetta frumvarp varð til.

Athyglisvert var að heyra tvíhöfðann tala bæði fyrir Sjálfstæðisflokk og stefnu hans og Samfylkinguna og stefnu hennar. Hv. þm. Helgi Hjörvar sagðist telja að nú væri tímabært að stíga það skref að aðskilja í rekstri sérleyfis- og samkeppnisþáttinn í þessum atriðum. Með raforkulögunum 2003 hefði verið stefnt að því að kanna hvort þetta mundi ganga, að samkeppnin kæmist á af sjálfu sér. Ég geri athugasemdir við að verið sé að lögleiða þessa uppskiptingu en ekki láta fyrirtækjunum og sveitarfélögunum það eftir hvernig þau koma eignum og rekstri sínum fyrir á sem hagkvæmastan hátt.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvert hann telji að næsta skref muni verða á þeirri vegferð ef þessi aðskilnaðarkrafa núna verður ekki til þess að auka samkeppnina. Það skyldi þó ekki vera að það sé í samræmi við álit Viðskiptaráðsins og í samræmi við álit Samkeppniseftirlitsins að eignarhaldslegur aðskilnaður eigi að vera í þeim þáttum?