135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[23:34]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var skemmtilegt þegar maður nálgast miðnættið, að koma aðeins við bæði í bíó og fótbolta með hv. þm. Gunnari Svavarssyni. Þegar hann talaði um bíómyndina og hvernig við spegluðum okkur í fortíðinni varð mér hugsað til þess að í þeirri framtíð sem við sjáum nú fyrir okkur, ef þetta frumvarp verður að veruleika, er ég ansi hrædd um að hv. þm. Gunnar Svavarsson gæti fengið martröð aftur. Vegna þess að mér óar við þeirri stefnu að hér eigi að fara að búta niður þessi öflugu fyrirtæki eins og Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur, búta þau niður í smælki til að hafa sérstaka stjórn og sérstakan framkvæmdastjóra yfir hverri og einni starfseiningu og útbúa þetta í neytendapakkningum með slaufu til þess að henda út á markaðinn.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann aðeins um afstöðu hans til álits Hollvina Hitaveitu Suðurnesja. Nú er ég ekki viss um hvort hann hefur kynnt sér það en í því kemur fram að þar óttast menn að með þessari uppskiptingu verði kallað eftir því að gjaldskrárheimildir verði rýmkaðar þannig að þjónusta í Hitaveitu Suðurnesja vegna uppskiptingarinnar og frumvarpsins muni hækka og það muni þýða aukin útgjöld á þá íbúa á þjónustusvæðinu. Ég tók grannt eftir því að hv. þingmaður taldi þetta styrkja lagaumhverfið, fyrirtækin og sveitarfélögin. En styrkir þetta fjárhag íbúanna eða veikir?