150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[17:46]
Horfa

María Hjálmarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Við fjöllum um frumvarp um ferðagjöf. Ég fagna að sjálfsögðu þessu frumvarpi en það eru þó nokkur atriði sem ég er aðeins hugsi yfir og vil tæpa á í ræðu minni í dag. Vart þarf að taka fram að þeir tímar sem við lifum á eru hreint út sagt ótrúlegir. Má segja að staða sú sem er í dag hafi verið algerlega ófyrirsjáanleg. Hverjum hefði nokkurn tíma dottið í hug að um allan heim yrði sett á strangt ferðabann og að við gætum ekki farið á veitingastaði, í bíó, á söfn eða í ræktina? Þessa dagana er ekki fjölmenni fyrir að fara í Reykjavík. Þetta er í raun stórfurðuleg upplifun. Við vitum þó að þetta tekur sem betur fer enda og núna eru vonandi bjartari tímar fram undan. Þó er enn ekkert í hendi hvað það varðar, það er alls óvíst hvernig veiran mun hegða sér og hvort önnur lönd muni opna landamæri sín á næstunni. Hér heima er sömuleiðis óvissa um hvort sú aðstoð sem ríkið hefur boðið upp á dugi fyrir þá sem á þurfa að halda. Staðan er sú að fyrirtæki og einstaklingar um allt Ísland hafa átt erfitt síðustu mánuði. Sum fyrirtæki gátu aðlagað rekstur sinn að breyttum aðstæðum á meðan aðrir gátu það ekki. Í stuttu máli er staðan sú að því miður munu væntanlega ekki öll fyrirtæki lifa þrengingarnar af, sem mun hafa gríðarleg áhrif á fjölmarga einstaklinga sem treysta á afkomu sína í tengslum við þau fyrirtæki.

Herra forseti. Það er nokkuð ljóst að þrátt fyrir opnanir landamæra munu erlendir ferðamenn líklegast ekki verða margir á landinu næstu mánuði. Margir óvissuþættir spila þar inn í. Það er því hægt að segja að markaðurinn sé allt annar en hann hefur verið síðustu ár. Í sumar treystum við því á íslenska ferðamenn, sem eru þó aðeins um 10% af öllum þeim fjölda ferðamanna sem koma til landsins á hverju ári. Ferðamynstur íslenskra ferðamanna er líka aðeins öðruvísi. Þeir gista síður á hótelum, kaupa síður leiðsögn og þess háttar þjónustu. Það má m.a. sjá á því að nú hefur aldrei verið jafn erfitt að kaupa hjólhýsi og fellihýsi þar sem þau virðast rjúka út. Íslenskir ferðamenn láta sömuleiðis stýrast mjög af veðri og vilja því síður binda sig við fasta daga á hótelum hringinn í kringum landið. Tækifærin eru því í auknum kaupum á upplifun og veitingum. Mörg fyrirtæki eru nú þegar farin að bjóða upp á alls kyns tilboð og rýna í tölur til að sjá hvernig þau geta mögulega lifað af. Fjölmörg þeirra ná að klára sumarið. En hvað svo? Hvernig mun haustið líta út? Munu ferðagjafir, hlutabótaleið og annað duga til að bjarga ferðaþjónustunni? Eða munum við horfa upp á fjöldagjaldþrot og að stærri fyrirtæki kaupi upp smærri fyrirtæki um allt land?

En aftur að ferðagjöfinni, málinu sem við ræðum hér. Samkvæmt frumvarpinu verður heimilt að gefa eigin ferðagjöf öðrum einstaklingi, en hver einstaklingur má aðeins greiða með að hámarki 15 ferðagjöfum. Þá er með hliðsjón af sjónarmiðum um ríkisaðstoð lagt til hámark á heildarfjárhæð ferðagjafar sem hvert fyrirtæki má taka við. Almennt eru það 100 millj. kr., en 25 millj. kr. hafi fyrirtæki verið metið í rekstrarerfiðleikum 31. desember sl. Það vakti þó athygli mína að ekki hafi einfaldlega verið ákveðið að gefa öllum Íslendingum slíka ávísun, líka börnum, en ljóst er að fyrir barnmargar fjölskyldur duga 10.000 kr. skammt þótt þær dugi auðvitað eitthvað. Samkvæmt tölum á vef Hagstofu Íslands eru 81.364 börn undir 18 ára aldri. Hefði ekki verið alveg þess virði að bæta þeim við og auðvelda þá sérstaklega fjölskyldum sem minna hafa milli handanna að gera sér dagamun í sumar? Svo ekki sé talað um að gera ferðaþjónustunni auðveldara að lifa af.

Herra forseti. Vissulega er ferðagjöfin glæsileg gjöf til Íslendinga sem mun að sjálfsögðu ýta undir ferðalög í sumar, alla vega fyrir þá Íslendinga sem eru ágætlega stæðir. Hinir fara líklega síður úr sínum bæ, þó mögulega í útilegu. Þeirra helsti kostnaður eru matarkaup í Bónus og Krónunni sem ekki eru með leyfi frá Ferðamálastofu. Það hafa ekki allir efni á því að fara í stóra jöklaferð eða fara með alla fjölskylduna á hestbak eða vilja eyða krónum í að skoða söfn. Markmiðið er oft bara að komast í frí út á land.

Herra forseti. Ég er með þessu ekki að tala ferðagjöfina niður. Þetta mun vissulega skipta miklu máli. Ég hef þó örlitlar áhyggjur af útfærslunni og þeim skilyrðum til fyrirtækja sem geta tekið á móti ferðagjöfinni. Ætti ekki að vera nóg að vera skráð sem fyrirtæki sem starfar í ferðaþjónustu og gefa fyrirtækjum leyfi á undanþágu ef það getur sýnt fram á að það veiti þjónustu til ferðamanna?

Ég er hrædd um að verið sé að setja pressu á nú þegar veika ferðaþjónustu með því að hún verður að leggja í púkk á móti ferðagjöfinni. Neytendur munu því njóta en ég er hrædd um ferðaþjónustuna, sérstaklega um litlu sprotafyrirtækin, sem eru jafnvel ekki með réttu leyfin en skipta vissulega miklu máli.

Herra forseti. Við þurfum að standa með ferðaþjónustunni í þeirri stöðu sem uppi er í dag. Ef við værum að tala um algjöran aflabrest í sjávarútvegi, til hvaða viðbragða hefði verið gripið? Ferðaþjónustan hefur allt frá hruni verið alger lykilatvinnugrein á Íslandi og aflað okkur stórs hluta útflutningstekna okkar. Vissulega er ástæða til að taka stöðuna og nýta tímann til að stokka upp í greininni sem hefur vaxið gríðarlega hratt síðustu ár. Á síðustu árum hafa sömuleiðis vaxið upp dýrmætir sprotar um allt land sem væri sannarlega sorglegt að týna í því ástandi sem nú er. Það er því mikilvægt að styðja við ferðaþjónustuna á þessu erfiða tímabili. Það frumvarp sem við fjöllum um er sannarlega liður í því, en við þurfum að gera meira og við þurfum að gera betur.