132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Ívilnanir til álvera á landsbyggðinni.

631. mál
[12:59]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég beini spurningum til hæstv. iðnaðarráðherra um ívilnanir til álvera á landsbyggðinni. Tilefni þessarar fyrirspurnar er viðtal við ráðherrann í Fréttablaðinu 14. mars síðastliðinn, þar sem segir svo, með leyfi forseta:

„Ríkið mismunar ekki fyrirtækjum í landinu með samningum við álfyrirtæki, segir Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Þeir séu samþykktir af eftirlitsstofnun EFTA þar sem starfsemin sé á landsbyggðinni.“

Síðan er orðrétt tilvitnun í hæstv. ráðherra:

„Heimilt er að styrkja fyrirtæki í ákveðinni starfsemi á landsbyggðinni. Svo vill til að sum þessara álfyrirtækja eru þar og hafa því gert ívilnandi samninga við stjórnvöld.“

Áfram segir í fréttinni vegna viðtals við forstjóra Marels um að ekki væri hægt að halda fyrirtækjum hér í landi vegna ytri efnahagslegra ástæðna, með leyfi forseta:

„Hún segir að fyrirtækið fengi fyrirgreiðslu starfaði það á landsbyggðinni og Eftirlitsstofnunin samþykkti það.“

Mér finnst þetta vera nokkur tíðindi og því hef ég beint fyrirspurnum til hæstv. ráðherra sem hljóða svo:

1. Í hverju eru þau sérkjör og „ívilnandi samningar við stjórnvöld“ fólgin sem álver og önnur fyrirtæki á landsbyggðinni geta fengið umfram fyrirtæki á suðvesturhorni landsins og heimil eru samkvæmt ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA?

2. Hver er ferill umsóknar fyrirtækja um sérkjör á þessum grunni? — Sem ráðherrann minnist á í fréttaviðtalinu.

3. Hvaða fyrirtæki í landinu njóta nú þegar sérkjara á nefndum forsendum, hverjar eru þær ívilnanir og hve mikla fjármuni er um að ræða í hverju tilviki?

Mér finnst þetta mjög athyglisvert. Það skiptir máli hvernig ríkið kemur að atvinnulífi og reyndar búsetu vítt og breitt um landið. Það skiptir vissulega miklu máli að það sé ekki gert með neikvæðum hætti. Ég minni á að enn eru óafgreiddar hugmyndir um niðurgreiðslu á flutningskostnaði til fyrirtækja á landsbyggðinni sem var þó eitt af digrustu kosningaloforðum Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar. En flutningskostnaðurinn og mismunun í flutningskostnaði er núna t.d. mjög íþyngjandi fyrir fyrirtæki á landsbyggðinni.

Þess vegna hef ég beint þessum spurningum, herra forseti, til hæstv. iðnaðarráðherra.