138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[19:46]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ekki endist mér nú eitt andsvar til að svara öllum þessum spurningum en ég geri það kannski í umræðunni síðar í kvöld.

Eitt skiptir miklu máli hér á hinu háa Alþingi og það er að alþingismenn gæti sín á því að sá ekki frækornum ótta og kvíða hjá fólki. Hv. þm. Eygló Harðardóttir er allt of góður og vandaður þingmaður til að leyfa sér að koma hingað upp og halda því blákalt fram að verið sé að ónýta 60 störf og að í reynd feli þetta í sér að verið sé að setja afkomu 60 starfsmanna í uppnám. Það er ekki svo. Ekkert sem fram hefur komið í þessari umræðu bendir til þess. Samkvæmt 5. tölulið í bráðabirgðaákvæðinu skal bjóða því starfsfólki Varnarmálastofnunar sem við gildistöku laganna fæst við verkefni sem falin verða öðrum stofnunum starf hjá þeim ríkisstofnunum sem gerðir verða verksamningar við eða samningar um rekstrarverkefni á grundvelli nýrrar greinar, sem verður 7. gr. a í lögunum að samþykktu þessu frumvarpi. Þetta felur í sér að starfsfólk Varnarmálastofnunar á þess kost að flytja með þeim verkefnum sem það hefur sinnt hjá sinni gömlu stofnun til þeirrar stofnunar sem tekur við verkefnunum á grundvelli verksamnings eða samnings um rekstrarverkefni. Það liggur alveg ljóst fyrir að ef starfsmaður þekkist slíkt boð mun stofnast það sem menn kalla ráðningarsamband á milli starfsmannsins og viðkomandi stofnunar og það stendur þar til því lýkur samkvæmt almennum reglum. Og hverjar eru þessar almennu reglur? Jú, það eru lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, það eru lög nr. 70/1996, og kjarasamningar, það er ekkert flóknara.

Ef hv. þingmaður eða hv. þingmenn komast að raun um að frumvarpið (Forseti hringir.) uppfylli ekki þessar forsendur ráðherrans við skoðun málsins í utanríkismálanefnd þá fer ég fram á það að nefndin breyti því til þess að tryggja rétt starfsmanna. En ég held (Forseti hringir.) að hann sé algjörlega tryggður.