140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:16]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get ekki séð þess stað í þessum samningi sem varðar umrædda styrki að fjallað sé um það hvað gera skuli ef ekki verður af aðild. (Gripið fram í.) Það er ekki fjallað um það í þessum samningi og athyglisvert að það sé ekki, en í 16. gr. er fjallað um lok áætlana og þess háttar og allar breytingar sem gera skuli, hvernig á að fara fram með þær og svo jafnframt um það hvernig hægt sé að segja upp samningnum sem er ótímabundinn. Það er því spurning þegar Ísland verður búið að fella þá tillögu að ganga í Evrópusambandið hvort ESB muni þá horfa á það að segja þessum samningi upp á grundvelli 23. gr. samningsins. En ég átta mig ekki alveg á því á grundvelli hvaða réttarreglna Evrópusambandið ætti að sækja þessa fjármuni til baka vegna þess að þetta er samningur sem er í gildi og þeir samþykkja það að láta af hendi fjármuni í þessi verkefni. Það verður þá bara að reyna á það þegar þar að kemur vegna þess að ég tel að það muni þar að koma. Ég tel að öllum sé ljóst að Ísland gengur ekki í Evrópusambandið, mun aldrei samþykkja það í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég vek athygli á því að í öllum þeim samningaviðræðum sem staðið hafa yfir núna í um það bil þrjú ár um aðild Íslands að Evrópusambandinu þá hef ég ekki séð þess stað að okkur standi til boða slíkar undanþágur frá reglum ESB varðandi þá kafla sem þegar er byrjað að semja um, að við munum ná gríðarlegum árangri í þeim köflum sem menn hafa ekki þorað að opna hingað til. Af þeirri ástæðu er algerlega ljóst að Íslendingar upp til hópa munu fella það að Ísland gangi í Evrópusambandið.