143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[13:34]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar. Hér fer um margt fram mjög mikilvæg umræða því að hún snýr að grundvallaratriðum sem eiga rætur langt aftur, að fyrirkomulagi á lífeyriskerfi og hvernig farið skuli með lífeyrissparnað.

Ég sagði að þessar rætur væru djúpar og lægju langt aftur. Þær ná aftur á miðja 19. öldina en þá var að finna í lögum sem að uppistöðu til komu frá Danmörku — þá var Alþingi að fæðast að nýju eins og við þekkjum — ákvæði sem höfðu að geyma tilmæli og skyldur embættismanna um að safna í eins konar lífeyrissjóð. Þetta er frá árinu 1851 og var lögfest 1855.

Margt gerðist á fyrstu áratugum 20. aldarinnar. Það voru sett lög um lífeyrissparnað embættismanna 1904. Síðan komu til sífellt fleiri lagasetningar. Fyrstu eiginlegu lífeyrissjóðirnir urðu til í byrjun þriðja áratugarins, árið 1921, en þá voru sett lög um tekju- og eignarskatt með ákvæði um skattfrelsi iðgjalda til lífeyrissjóða. Lífeyrissjóður embættismanna og ekkna þeirra var stofnaður 1921 svo og Lífeyrissjóður barnakennara. Síðan fylgdu fleiri lífeyrissjóðir, bæði í opinbera kerfinu og á almennum vinnumarkaði. Grundvallarlög voru sett hér 1936 um alþýðutryggingar. Með þeim var stofnuð Tryggingastofnun ríkisins en innan hennar var deild sem sinnti lífeyrismálum.

Lífeyrissjóður opinberra starfsmanna varð til 1943. Þá voru einnig sett lög um almannatryggingar á grundvelli alþýðutryggingalaganna frá 1936. Það var reyndar þremur árum síðar, árið 1946. Það lífeyriskerfi sem við búum við í dag á sögu sína að rekja til kjarasamninga 1969, en á næstu árum voru sett ýmis lög um lífeyrissjóðina. 1974 voru sett lög sem skylduðu alla launamenn og atvinnurekendur þeirra til að greiða að minnsta kosti 10% til lífeyrissjóða. Áfram var haldið á þeirri vegferð að styrkja lífeyriskerfi landsmanna, bæði almannatryggingakerfið og einnig sjóðsöfnunarkerfin. Það voru settar fram lagabætur á næstu áratugum, frá 1976 til 1997, en þá varð þar á grundvallarbreyting. Þá voru sett heildarlög um lífeyrissjóðina sem byggðu á mjög víðtækri sátt í samfélaginu. Undanfari þeirrar lagasetningar var samkomulag sem gert var við opinbera starfsmenn sumarið og haustið 1996 eftir miklar deilur um framtíð lífeyriskerfisins og þá féllust opinberir starfsmenn á að fara inn í svipaðan farveg og gerðist á almenna vinnumarkaðnum, sjóðsmyndun í stigakerfi sem er áþekkt því sem þar tíðkast. Í þessu samkomulagi var fallist á að leggja af gamla kerfið sem byggði á svokallaðri eftirmannsreglu. Þarna verða skil.

1974 var sett í lög að allir skyldu greiða í lífeyrissjóð. Tveimur árum síðar var það einnig látið ná til sjálfstætt starfandi einstaklinga. 1980 mun þessi skylda hafa verið látin ganga til allra einstaklinga.

Síðan var sett í lögin að greitt skyldi af öllum launum, ekki bara dagvinnulaunum á almennum vinnumarkaði, og tíu árum síðar var þetta einnig látið ná til opinbera geirans. Þá er spurningin hvert við erum komin. Hvar stöndum við í dag? Við stöndum þar í dag að á opinbera vinnumarkaðnum eru 15,5% af heildarlaunum greidd í almenna lífeyrissjóði. Þar fyrir utan eru séreignarsjóðirnir. Í þá er heimilt að greiða 6% af heildarlaunum. Tímabundið var þetta fært niður um 2 prósentustig þannig að það var 4% í kjölfar kreppunnar en síðan er þetta gamla ákvæði að koma til sögunnar að nýju.

Hvað þýðir það? Jú, svo ég haldi því til haga er prósentan á almennum vinnumarkaði lægri. Hún er ekki 15,5%, hún er 12%. 12% af heildarlaunum eru greidd í lífeyrissjóði á almennum vinnumarkaði, en þessi heimild til 6% er einnig til staðar. Það gerir 18%. Í hinu tilvikinu eru það 15,5% plús 6% og menn geta reiknað út að það eru 21,5%.

Hvers vegna tíunda ég þetta svona nákvæmlega? Ég er að reyna að gera sjálfum mér og okkur öllum grein fyrir því um hve gríðarlegar upphæðir er að tefla. Við erum að tala um að fimmtungurinn af öllum launatekjum okkar er lagður til hliðar í sparnað. Á Íslandi er fimm daga vinnuvika, mánudagur, þriðjudagur, miðvikudagur, fimmtudagur og föstudagur. Þetta fyrirkomulag þýðir að einn dag í viku vinna allir launamenn í landinu bara fyrir lífeyrissjóðinn, leggja allt til hliðar í sparibaukinn. Nei, það er enginn sparibaukur, það eru nefnilega áhöld um það hvort yfirleitt sé hægt að geyma peninga.

Í hruninu töpuðu lífeyrissjóðirnir að sjálfsögðu miklum fjármunum, eins og norski olíusjóðurinn sem tapaði fjórðungnum af tekjum sínum í þessari sveiflu kapítalismans í Evrópu og um heim allan. Þetta er nefnilega ekki örugg fjárfesting. Kapítalisminn er ekki öruggur varðveisluaðili. Við Íslendingar eigum hins vegar verðtryggingu eins og allar aðrar þjóðir. Hver er okkar verðtrygging? Hún syndir í sjónum í kringum Ísland, hún er auðlindir Íslands í fallvötnunum, sjávarauðlindinni, ferðaiðnaðinum, náttúruperlunum sem við eigum og innviðunum sem við höfum smíðað okkur. Það er okkar verðtrygging. Lífeyrir okkar verður aldrei betri en þessi verðtrygging, hin er nefnilega fallvölt.

Við þessa umræðu hefur mér fundist eins og menn líti á lífeyrissparnað sem pening sem geymdur er í eins konar sparigrís og bíður þess að við tökum hann út aftur. Þetta er ekki þannig.

Þá vaknar spurningin: Hvernig varðveitum við sparnað okkar best? Við varðveitum hann best í heimili okkar, í húsnæðinu. Það eru gömul sannindi á Íslandi. Einu sinni var talað um að fjárfesta í steinsteypu. Það eru ekki orð út í loftið, þetta er bara veruleikinn í lífi sem við öll þekkjum. Við þekkjum það öll að besta tryggingin sem við höfum hvert og eitt inn í ellina er að búa við öryggi í húsnæði. Svo getum við búið til húsnæðiskerfi sem þjónar mismunandi óskum þegnanna. Það getur verið séreignarkerfi. Það getur verið eins konar búsetukerfi sem menn reyndu að koma á fót en hefur því miður ekki tekist nógu vel. Ég held að þar eigi menn að reyna betur þar sem menn kaupa eða eignast hlutdeild í húsnæði og þar með öryggi.

Illu heilli var horfið frá þessu í verkamannabústaðakerfinu þegar það var lagt niður með Húsnæðisstofnun seint á tíunda áratugnum með lagabreytingunum 1996. Ein ástæðan fyrir því að margir vildu hverfa frá því kerfi var sú að menn sögðu að þeir sem eru þarna inni með eign sína nytu þess ekki þegar fasteignin risi í verði á markaði. Ástæðan fyrir því að menn vildu fara út úr frjálsmarkaðskerfinu og inn í eitthvert slíkt félagslegt form var vilji til að útiloka braskþáttinn í húsnæðiskerfinu. Hugsunin var að þannig væri hægt að ná verðlaginu niður. Það er að hluta til hugsunin á bak við danska kerfið sem er 219 ára gamalt og byggir á allt annarri hefð en við gerum. Þess vegna er ég með efasemdir um að hægt sé að innleiða það hrátt á Íslandi, við þurfum að minnsta kosti að hugsa mjög vel hvernig við gerum það.

Fólk ræður ekki við skuldir sínar og ógnarháan höfuðstólinn og þau ráð sem við eigum í vaxtabótum og sérstökum vaxtabótum duga ekki nema í augnablikinu. Þau duga til að hjálpa mönnum í gegnum erfiðleika yfirstandandi árs en þessar bætur eru ekki til frambúðar nema þær komi allan skuldatímann. Þess vegna skiptir höfuðmáli að ná höfuðstól lánanna niður. Það voru ekki bara stjórnarflokkarnir sem töluðu um þetta fyrir síðustu kosningar, við gerðum það mörg, m.a. við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Við vildum ná höfuðstólnum niður.

Þess vegna segi ég að hugmyndin um að nýta séreignarsparnaðinn til þessa finnst mér góð. Mér finnst æskilegt að taka þennan sparnað minn og færa hann frá braski lífeyrissjóðanna yfir í raunhæfa eign mína. Mér finnst það ekki slæm hugmynd.

Ég óttast líka að lífeyriskerfið á Íslandi sé orðið allt of stórt, er reyndar alveg sannfærður og hef skrifað nokkrar greinar um það. Lífeyrissjóðirnir eru of stórir, þeir eru með gríðarlegt fjármagn sem bíður þess að komast á beit en kemst illa, náttúrlega að hluta til vegna gjaldeyrishaftanna. Ég hef verið þeirrar skoðunar að það eigi að gefa undanþágu fyrir lífeyrissjóðina svo þeir komist með fjármagn úr landi til fjárfestingar erlendis. Annars erum við komnir með lífeyrissjóðina ákafa í að leita meðal annars leiða inn í opinbera reksturinn, eignast Landsvirkjun og helst einkavæða sem víðast til að koma með peninga sína þangað.

Ég held að þeir séu orðnir of stórir og þess vegna hef ég talað fyrir því að við reyndum að endurskoða mat okkar frá 1996 þegar allir í þessum sal voru sammála um að nú væri sjóðsmyndunarkerfi lífeyrissjóðanna að taka yfir almannatryggingar til frambúðar, að almannatryggingar hefðu sáralítið hlutverk í framtíðinni. Það var hugsunin. Ég held að þetta gangi ekki upp. Ég held að það verði að endurskoða þetta. Við þurfum að finna að nýju góða blöndu fyrir gegnumstreymisalmannatryggingakerfi og sjóðssöfnun lífeyrissjóðanna. Það má aldrei gleyma að peningar sem eru til ráðstöfunar í lífeyrissjóðunum einum eru ekki öruggir í hendi. Þeir eru ekki eins öruggir í hendi og heimilið. Það er miklu öruggari fjárfesting fyrir einstaklinginn og fjölskylduna en peningar í lífeyrissjóðum sem verið er að braska með á markaði. Það er ákveðið val og það er um það hvernig þessi blanda eigi að líta út.

Það sem ég tel gagnrýnivert í þessum málum núna er hve seint þetta kemur fram, jafnvel þó að hugmyndirnar hafi verið reifaðar, vegna þess að allar hugmyndir og kerfisbreytingar sem snerta marga eiga að fá umræðu frá þessum mörgu, líka frá forsvarsmönnum lífeyrissjóðanna. Þó að ég hafi í seinni tíð oft verið ósammála lífeyrissjóðunum og gagnrýni þeirra á hún að heyrast. Hún á að koma inn í þingið og hljóma í þjóðfélaginu almennt. Það má gott segja um húsnæðistillögurnar, sem hafa verið kynntar, að þær eru á þessu stigi aðeins kynntar og munu fá umræðu í sumar og fram á haustið. Það er gott vegna þess að þá mun þessi umræða gerjast. Öllum gefst tækifæri til að koma ábendingum sínum, gagnrýni og sjónarmiðum á framfæri. Það er gott. Þannig hefði það þurft að vera með þessi áform ríkisstjórnarinnar, bæði hvað varðar lífeyrissparnaðinn og skattatillögurnar sem ganga ekki lengra en svo að hugsunin er sú að heimili geti tekið út úr séreignarsparnaðinum 750 þúsund, upphaflega 500 þúsund, á ári í þrjú ár. Mér finnst ágætt að fá þessa tilraun gerða en tel að það eigi að horfa til framtíðar líka, hvort það kæmi til álita að slíkt kerfi yrði viðvarandi. Við þurfum að hugsa til þess hvernig við getum komið á einhvers konar sparnaði og örvað hann í ríkari mæli en verið hefur. Þetta hefur staðið mörgu ungu fólki fyrir þrifum, það getur ekki staðið straum af fyrstu afborgunum af lánunum vegna þess að það hefur aldrei fengið tækifæri til að byggja upp neinn höfuðstól, neinn sparnað.

Þá er spurningin: Er þar með gengið á rétt eldra fólksins, okkar í ellinni? Það held ég ekki. Hvað gerum við í ellinni við séreignarsparnaðinn? Hvað gerir maður á efri árum? Þá tekur maður út þennan ellilífeyri og séreignarsparnaðinn, eða hvað sem hann kallast, til að lifa lífinu. Og hvað gerir fólk? Endurnýjar bílinn sinn, endurnýjar eldhúsinnréttinguna, og þá er ég að tala um þá sem eru ekki að berjast frá degi til dags, og það borgar niður skuldir sínar. Þeir sem hafa hlaðið upp miklum skuldum, t.d. vegna íbúðakaupa, borga þær niður.

Nú er verið að tala um að flýta þessu, örva það að fólk láti fjármuni renna í að ná niður skuldum fyrr og sé ekki í basli alla ævina af þeim sökum.

Hæstv. forseti. Ég hef lokið ræðutíma mínum. Þetta eru hugmyndir sem mér hafa lengi fundist þess virði að hugleiða. Þær hefðu átt að koma fram miklu fyrr og þær eiga að ræðast í lengri tíma almennt. Það á við um allar grundvallarkerfisbreytingar (Forseti hringir.) sem gerðar eru að þær þurfa tíma og eiga að þola kastljósið að því leyti.