144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:17]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Talað er um fagmennsku í þessu máli. Með þeim gleraugum las ég aftur yfir nefndarálit meiri hluta atvinnuveganefndar með breytingartillögu. Ég sé ekki betur en þar sé mjög pínleg staðreyndavilla. Þar segir:

„Verkefnisstjórn 2. áfanga lagði til að 67 kostir, sem lagt hafði verið mat á, röðuðust í sérhvern þessara þriggja flokka, þ.e. að 16 virkjunarkostir féllu í orkunýtingarflokk, 31 kostur í biðflokk og 20 kostir í verndarflokk.“ — Þetta eru rangar tölur. Svo segir: „Einnig voru sex virkjunarkostir fluttir úr nýtingarflokki í biðflokk …“ — Að loknu ferli sem þar er rakið, fullkomlega löglegt og málefnalegt ferli, það er rakið ágætlega í nefndarálitinu, en sem sagt sex virkjunarkostir voru fluttir úr nýtingarflokki í biðflokk. Á þessum kafla má skilja, ef maður kann að reikna, að meiri hluti atvinnuveganefndar virðist telja að í núgildandi áætlun um vernd og orkunýtingu séu einungis tíu kostir í nýtingarflokki. Þeir eru (Forseti hringir.) 16. Það verður auðvitað að prenta þetta upp, breyta þessu, (Forseti hringir.) vegna þess að þetta er mjög pínleg staðreyndavilla í mjög mikilvægu máli og lýsir auðvitað því hversu vanbúið þetta er allt saman.