149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:41]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Svo tekinn sé upp þráðurinn þar sem hv. þingmaður sleppti honum, um afleiðingar þess að við höfnum því að lögleiða þriðja orkupakkann og tökum upp málið á grundvelli ákvæða í samningnum sjálfum á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar, ætla ég að leiða fram þýðingarmikið vitni í þessu máli. Ég hef áður leitt fram vitnið Davíð Oddsson, sem var forsætisráðherra þegar samið var og EES-sáttmálinn staðfestur, en í þetta sinn vil ég vísa til umsagnar Jóns Baldvins Hannibalssonar, sem var utanríkisráðherra á þeim tíma og bar, ásamt forsætisráðherra, mesta pólitíska ábyrgð á málinu auk þess sem hann beitti sér, eins og allir þekkja, mjög fyrir því.

Hann spyr í álitsgerð sinni, með leyfi forseta:

„Mun höfnun á lögleiðingu þriðja orkupakkans hér á landi setja EES-samninginn í uppnám?

Svarið við þessari spurningu er ótvírætt: Nei.

EES-samningurinn tryggir aðildarríkjunum óvefengjanlegan rétt til að hafna innleiðingu löggjafar á tilteknu málasviði, ef hún á ekki við eða þjónar ekki hagsmunum viðkomandi ríkis. Fyrir þessu eru mörg fordæmi. Höfnun innleiðingar hefur ekki í för með sér nein viðurlög. Afleiðingin er sú, að málinu er vísað til sameiginlegu EES-nefndarinnar, þar sem samið er um málið. Þar með fást þeir einu fyrirvarar, sem öruggt hald er í.

Þessi ótvíræði réttur aðildarríkja EES-samningsins til þess að hafna innleiðingu löggjafar út frá eigin þjóðarhagsmunum, án viðurlaga, var frá upphafi“ — segir Jón Baldvin Hannibalsson — „ein meginröksemdin fyrir því, að framsal valds samkvæmt samningnum væri innan marka þess sem samrýmdist óbreyttri stjórnarskrá.

Þar með var fullveldisrétturinn de jure viðurkenndur, sem hefur verið staðfestur með fordæmum de facto.

Margir virðast nú hafa gleymt því, að sá mikli árangur sem náðist fyrir Íslands hönd í EES-samningunum, var ekki auðsóttur.“ — Jón Baldvin Hannibalsson segir: — „Mér er til efs, að hann hefði náðst án stuðnings samstarfsþjóða okkar í EFTA. Þetta á t.d. við um fríverslun með fisk. Ég ræð það af reynslu okkar af EES-samningnum á sínum tíma, að við hefðum aldrei náð þeim árangri í tvíhliða samningum. Sama máli gegnir um því sem næst fullan markaðsaðgang að innri markaðnum, án þess að“ — ég bið hv. þingheim að taka vel eftir — „ESB héldi til streitu stefnu sinni um aðgang að auðlindum í staðinn fyrir aðgang að markaði.“

Jón Baldvin segir nokkru síðar:

„Það má eftir atvikum semja um gagnkvæman markaðsaðgang. En það kemur ekki til greina að semja um aðgang að markaði fyrir aðgang að auðlind. Þaðan af síður eigum við að taka þá áhættu, að þetta gerist „bakdyramegin“, í krafti samkeppnisreglna innri markaðarins, án þess að íslenska þjóðin hafi tekið um það meðvitaða ákvörðun.“

Jón Baldvin segir enn fremur:

„Stuðningur við EES-samninginn byggir að lokum á pólitískri afstöðu kjósenda í aðildarríkjunum. Ef hinn voldugi samningsaðili, Evrópusambandið, hættir að virða í reynd þetta grundvallaratriði EES-samningsins og krefst þess að EFTA-ríkin samþykki skilyrðislaust það sem að þeim er rétt, án tillits til eigin þjóðarhagsmuna, er hætt við að stuðningur við EES-samninginn fari þverrandi. Þar með getur EES-samningurinn, með öllum þeim ávinningi sem hann hefur tryggt Íslandi á undanförnum aldarfjórðungi, verið í uppnámi. Á því“ — segir Jón Baldvin og lýkur þar með umsögn sinni — „bera þá þeir einir ábyrgð sem vilja þröngva þriðja orkupakkanum upp á þjóðina með ófyrirséðum afleiðingum og í trássi við þjóðarviljann.“