149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:18]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er hárrétt. Ég vil vitna enn í Eyjólf Ármannsson lögfræðing og upphafsorð hans í umsögn til utanríkismálanefndar þar sem hann segir einfaldlega, með leyfi forseta:

„Alþingi á að hafna þingsályktunartillögunni og tilkynna það sameiginlegu EES-nefndinni. Slík málsmeðferð ógnar ekki aðild að EES-samningnum enda í fullu samræmi við ákvæði hans. Fyrir Ísland er slíkur ótti í EES-samstarfinu hættulegur.“

Því segi ég, eins og ég sagði áðan, hæstv. forseti: Það eina sem skortir í þessu máli af hálfu ríkisstjórnarflokkanna er kjarkur. Það er kjarkur, það að þora að taka slaginn fyrir Ísland.

Hæstv. forseti, sem nú situr í stóli, og hans góðu félagar í Sjálfstæðisflokknum blessuðum þyrftu ekki að standa í stóru stríði við okkur hin um það að víkja aðeins af leið, taka skynsamlegustu leiðina og vísa þessu máli í sáttameðferð. Það þyrftu ekki mikil átök á þinginu til þess, vegna þess að þetta mál á ekki að vera flokkspólitískt.

Því miður er búið að gera það flokkspólitískt með því að — auðvitað geta Evrópuflokkarnir ekki beðið eftir að komast í faðminn, við skiljum það, en aðrir grandvarir stjórnmálaflokkar sem eru búnir að taka U-beygju í málinu án þess að skýra það með fullnægjandi hætti, það er svo ótrúlegt. Og það er kannski það sem maður á svo bágt (Forseti hringir.) með að sætta sig við og það er kannski það sem maður er, hvað á ég að segja, mest trekktur yfir, að það skuli gerast með þeim hætti.