149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:30]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það var ekki ætlun mín að gera þingmanni upp vonleysi gagnvart sjálfum sér eða þeim sem hér hafa staðið í baráttu eða því góða fólki sem allt um kring hefur sent okkur góðar kveðjur og stendur að baki okkur. Ræðu minni var meira beint til þess að það væri ákveðið vonleysi gagnvart stjórnvöldum, að þau sæju ljósið í þessu máli. Svona frekar hefur maður haft á tilfinningunni að stjórnvöld fjarlægist málið en nálgist eftir því sem umræðunni vindur fram.

Ég spurði hv. þingmann hvernig hann upplifði, hvað eigum við að segja, álit fólks hér úti. Ég gerði það að leik mínum þegar ég brá mér aðeins frá í eina og hálfa klukkustund að skoða aðeins samfélagsmiðla. Nú er ég ekki mikið tölvutröll en er þó með tölvupóst, fæ smáskilaboð og er með svona samskiptaforrit á síma. Ég taldi saman að ég hefði að meðaltali á klukkustund fengið 40 hvatningar, það sem af er, þess efnis að halda áfram og hvika hvergi fyrr en í fulla hnefana. Við því mun ég verða.