150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[11:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2020 sem er að finna á þskj. 1488. Þetta hygg ég að sé þriðja fjáraukalagafrumvarpið sem við komum með á þessu vorþingi. Með frumvarpinu eru lagðar fyrir Alþingi tillögur um breytingar á fjárheimildum ýmissa málefnasviða og málaflokka vegna þeirra efnahagslegu afleiðinga sem heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur haft á hagkerfið.

Áhrif farsóttarinnar á hagkerfið hafa verið að koma betur í ljós á undanförnum vikum. Þó er enn ógerningur að segja til um hversu mikil þau verða þegar upp er staðið. Frá því að faraldurinn hófst hefur fjölmörgum efnahagslegum aðgerðum verið hrint í framkvæmd. Nú þegar hefur Alþingi samþykkt tvenn fjáraukalög, eins og ég vék að, fyrir árið 2020. Við framlagningu þeirra frumvarpa var gerð grein fyrir almennum málsástæðum vegna afleiðinga heimsfaraldurs Covid-19. Þar var jafnframt að finna umfjöllun um spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um horfur í heimshagkerfinu og alþjóðlegar áherslur á ráðstafanir í opinberum fjármálum. Þá hefur í sömu frumvörpum verið gerð grein fyrir aðgerðum íslenskra stjórnvalda og tengdum ráðstöfunum í ríkisfjármálum vegna faraldursins og tel ég rétt að vísa til greinargerða þeirra frumvarpa til frekari upplýsinga.

Hagkerfið stendur nú frammi fyrir tvíþættu áfalli sem birtist annars vegar í skörpum samdrætti innlendrar eftirspurnar og hins vegar í miklu tekjufalli í ferðaþjónustu. Útlit er fyrir að efnahagssamdrátturinn verði dýpri og vöxturinn í kjölfarið hægari en spáð var í fyrstu og að atvinnuleysi geti orðið langvinnara en Íslendingar eiga að venjast. Við sáum síðast í dag fréttir af mjög stórum fjöldauppsögnum, því miður, og útlitið í atvinnumálum hefur verið að versna eftir því sem vikurnar hafa liðið. Ríkisstjórnin hefur á sama tíma tekið ýmsar ákvarðanir um stórtækar ráðstafanir til að bregðast við áhrifum faraldursins en ljóst er að það mun taka einhvern tíma að sjá að fullu áhrif þeirra aðgerða á efnahagslífið.

Fram til þessa hafa stjórnvöld sett fram mótvægisaðgerðir í fjórum áföngum á um sjö vikna tímabili, frá miðjum mars til loka apríl. Fyrsti áfanginn fólst í lagasetningu þann 13. mars sl. með gjalddagafrestunum á staðgreiðslu tekjuskatts, útsvars og tryggingagjalds. Kynntir hafa verið þrír aðgerðapakkar og voru nýjustu ráðstafanir kynntar í lok apríl. Fela þær í sér framlengingu hlutastarfaleiðarinnar, greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti og greiðsluskjól fyrir fyrirtæki.

Í þessu frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2020 er fyrst og fremst lagt til að veittar verði auknar fjárheimildir vegna ákvarðana ríkisstjórnarinnar um afmarkaðar og tímabundnar ráðstafanir til að bregðast við áhrifum faraldursins á vinnumarkaðinn. Auk þess er óskað eftir fjárheimild til uppsafnaðrar fjárþarfar vegna endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar á Íslandi og lagt er til að gerð verði breyting á heimildarákvæði fjárlaga í frumvarpinu.

Virðulegi forseti. Hér eru gerðar tillögur um ný verkefni og auknar heimildir sem varða útgjaldamál sem voru ófyrirséð við afgreiðslu fjárlaga yfirstandandi árs og teljast nú orðin brýn eða óhjákvæmileg. Í frumvarpinu er farið fram á að fjárheimildir ríkissjóðs á árinu 2020 verði auknar um rúma 65 milljarða en það svarar til um 6,3% hækkunar á áður samþykktum fjárheimildum. Hafa þá fjárheimildir hækkað um 103 milljarða kr. frá því að fjárlög fyrir árið 2020 voru samþykkt í nóvember sl. Samtals nema gildandi fjárheimildir fyrir árið 2020 um 1.042 milljörðum kr. Umfang tillagna frumvarpsins skýrist af fáum en þýðingarmiklum útgjaldamálum. Þá eru í 3. gr. frumvarpsins einnig lagðar til breytingar á heimildaákvæðum, eins og vikið var að áður. Þær eru að finna í 6. gr. fjárlaga fyrir árið 2020.

Ég vík þá að meginefni frumvarpsins. Í fyrsta lagi er lagt til að auka fjárheimildir vegna greiðslna hlutabóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Samtals er lagt til að veita 34 milljarða á tímabilinu 15. mars til 31. ágúst í verkefnið. Um er að ræða rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitenda vegna Covid-19 faraldursins. Í lok apríl höfðu rúmlega 6.600 fyrirtæki nýtt sér hlutabótaleiðina fyrir meira en 35.000 starfsmenn og hefur starfshlutfall þeirra að meðaltali verið skert um 64%. Yfir helmingur fyrirtækjanna er með einn starfsmann í skertu hlutfalli og 91% færri en 10 starfsmenn. Gert er ráð fyrir að úrræðið verði framlengt um þrjá mánuði eða til 31. ágúst og er búist við að um 14.000 manns nýti sér úrræðið á því tímabili.

Í öðru lagi er lagt til að auka fjárheimildir um rúma 27 milljarða vegna greiðslu úr ríkissjóði á hluta launa starfsfólks á uppsagnarfresti. Fjárveitingin er tvíþætt. Annars vegar er um að ræða allt að 27 milljarða vegna greiðslu á hluta launa á uppsagnarfresti og hins vegar 50 milljónir vegna umsýslukostnaðar hjá Skattinum vegna vinnu við hugbúnaðargerð ásamt afgreiðslu umsókna og eftirlits. Áætlað er að úrræðið geti náð til um 12.500 launþega sem flestir starfa í ferðaþjónustu. Áætlaður kostnaður miðast við 85% af meðallaunakostnaði launþega í ferðaþjónustu og tengdum greinum, en hann nemur 540 þús. kr. á mánuði, þ.e. laun og lífeyrissjóðsgreiðslur. Hámarksstuðningur hvers launþega verður í tíma afmarkaður við þrjá mánuði, auk launa er gert ráð fyrir orlofi. Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður ríkissjóðs verði að meðaltali 2,1 milljón á hvern launþega.

Í þriðja lagi er lagt til að auka fjárheimildir um 2 milljarða vegna greiðslna til þeirra einstaklinga sem sætt hafa sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda. Sóttkví hefur verið lykilráðstöfun í baráttunni við veiruna og markmiðið með greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði er að verja einstaklinga gegn tekjutapi og stuðla þannig að því að fólk fari eftir fyrirmælum stjórnvalda. Hámarksfjárhæð er 630 þús. kr. á mánuði miðað við heilan almanaksmánuð. Upphaflega var gert ráð fyrir að greiðslutímabilið næði til 30. apríl 2020 en það hefur verið framlengt til 30. september 2020. Þá hefur það gerst að mun fleiri einstaklingum hefur verið gert að fara í sóttkví en við gerðum upphaflega ráð fyrir og því eru væntingar um að útgreiðslurnar verði þegar upp er staðið töluvert hærri en þær 700 milljónir sem upphaflega var reiknað með að úrræðið mundi kosta. Það er þó dálítið erfitt um þetta að spá en við notum sömu forsendur um kostnað við úrræðið og lagt var upp með þegar upphafleg áætlun um kostnað vegna úrræðisins var gerð. Það má segja að það séu vísbendingar um að það muni mögulega ekki reyna á alla þessa 2 milljarða en við teljum ekki annað varlegt en að tryggja fjárheimildana og hún fellur þá niður, verði hún ekki nýtt. Eins og áður var komið inn á er hér verið er að framlengja tímabilið til 30. september og þess vegna munum við sjá þetta betur þegar líður að lokum þessa árs.

Í fjórða lagi er lagt til að auka fjárheimild um 2,1 milljarð vegna endurgreiðslna á kostnaði við kvikmyndagerð á Íslandi. Framlaginu er ætlað að mæta auknu umfangi endurgreiðslna umfram forsendur fjárlaga. Fjárveiting ársins 2020 hefur nú þegar hefur verið greidd út, en ógreidd vilyrði ársins nema um 2,1 milljarði samkvæmt áætlunum um útgreiðslur. Fjárhæðin skiptist annars vegar í ógreidd vilyrði vegna verkefna 2020 sem áætlað er að komi til endurgreiðslu á árinu og hins vegar er um að ræða ógreidd vilyrði frá fyrri árum sem gert er ráð fyrir að verði greidd út á þessu ári. Með því að mæta uppsöfnuðum halla á endurgreiðslum mun skapast svigrúm til að taka inn ný verkefni og nýta möguleg tækifæri sem myndast hafa í greininni í kjölfar Covid-19 faraldursins en í ljósi góðs árangurs Íslands í baráttu við faraldurinn hefur áhugi kvikmyndaframleiðenda á Íslandi sem tökustað aukist

Virðulegur forseti, Ég ætla þá næst að víkja að nýjum heimildum í frumvarpinu. Í 3. gr. þess er lögð til breyting á heimildaákvæðum í 6. gr. fjárlaga fyrir árið 2020. Lagt er til að við greinina bætist tveir nýir liðir. Annars vegar heimild til að veita allt að 650 milljóna kr. framlag til Kríu, sem er sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins, sem fjárfestir í sérhæfðum sjóðum sem hafa þann tilgang að fjárfesta í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Hins vegar heimild til að veita allt að 500 milljóna kr. framlag til Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, sem er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins, vegna veitingar sérstakra mótframlagslána til sprotafyrirtækja sem hafa orðið fyrir tímabundnum skakkaföllum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Nýsköpunaráðherra mun annast gerð samnings við Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins um framkvæmd mótframlagslána, skilyrði þeirra og kjör.

Virðulegur forseti. Ég hef þá farið yfir helstu þætti þessa frumvarps til fjáraukalaga fyrir árið 2020. Ég legg til að frumvarpinu verði, að lokinni þessari umræðu, vísað til 2. umr. og hv. fjárlaganefndar þingsins, sem fær málið til skoðunar.