143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:10]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður dró réttilega þá ályktun að ég tel ýmsa annmarka á þessu máli þó að mér finnist mikilvægt að við veltum því fyrir okkur hvernig við getum endurskoðað og eflt sparnað í landinu. Ég ræddi það raunar hér stuttlega, því að ég vildi ekki lengja umræðuna að óþörfu, hvernig við gætum samræmt kerfið sem við erum með og horfðum þá annars vegar til lífeyriskerfisins og hins vegar húsnæðiskerfisins. Það sem mundi trufla mig til að mynda væri að taka mjög stórar ákvarðanir sem hafa áhrif. Ég tók það raunar fram að það hafi verið gert á síðasta kjörtímabili, fram í tímann, án þess að búið væri að taka þá umræðu.

Hvað varðar skoðanir hv. þm. Ögmundar Jónassonar þá er mér fullkunnugt um þær. Ég er talsvert gagnrýnni á þetta mál en eins og ég sagði hér áðan meðan hæstv. forseti bankaði í bjöllu og ég endurtek það bara svo að það heyrist þá er mjög mikilvægt að þessar ólíku skoðanir komi fram hér því að, eins og kemur fram í Frelsinu eftir John Stuart Mill, þá getur ein gagnrýnisrödd (Forseti hringir.) jafnvel skipt máli til að færa okkur nær (Forseti hringir.) sannleikanum.