143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:13]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf):

Virðulegi forseti. Þá er það komið hér til 2. umr. í þingsal þetta mál sem hefur sveimað um í stjórnmálaumræðunni undanfarin fimm ár eða svo, þessi hugmynd um flata niðurfellingu höfuðstóls verðtryggðra lána. Mér finnst ég stundum skynja eins og fólk sé orðið hálfdofið fyrir þessari umræðu, fyrir þessari hugmynd og hætt að setja þetta í samhengi. Byggðar voru upp ákveðnar væntingar í kosningabaráttunni um að höfuðstóll verðtryggðra lána yrði afskrifaður um einhverja 300 milljarða, það kunna að hafa verið útúrsnúningar, ég veit það ekki, en það er alla vega sú hugmynd sem fór á kreik. Svo kemur hér hugmynd um afskrift upp á 80 milljarða og þá segja sumir: Jæja, þetta er þá skárra en 300, ætli sé ekki best að samþykkja þetta. En 80 milljarðar er gríðarleg upphæð.

Mér finnst doðinn og gagnrýnisleysið gagnvart þessum hugmyndum vera einkar skaðlegur. Þetta er kosningaloforð vissulega. Sumir segja: Já, þjóðin ákvað þetta, þjóðin gaf ríkisstjórnarflokkunum umboð til að gera þetta, þess vegna eigum við að samþykkja þetta. En gerði þjóðin það? Var það raunverulega meiri hluti þjóðarinnar sem var að kalla eftir þessu í síðustu kosningum? Jú, ríkisstjórnarflokkarnir hafa meiri hluta, en þetta er samt ekki ástæða til að láta af gagnrýninni hugsun. Við verðum að fara ærlega í saumana á þessu. Á þessum tímapunkti núna, þegar þetta er að fara að koma til lokaafgreiðslu, verðum við einfaldlega að spyrja, burt séð frá forsögunni, burt séð frá kosningabaráttunni, burt séð frá því að þetta hefur verið deilumál hérna í fimm ár: Er þetta rétt? Er þetta gott? Er þetta skynsamlegt? Hvaða áhrif hefur þetta?

Við fyrir okkar leyti í Bjartri framtíð höfum komist að mjög afdráttarlausri niðurstöðu um þessar hugmyndir. Ég kallaði þetta einfaldlega hér í 1. umr., þessa hugmynd sem við ræðum hérna núna, ég kallaði hana einfaldlega því merkingarbæra og góða íslenska orði bruðl. Þetta er bara bruðl sem við erum að ræða hérna. Við erum einfaldlega að tala um að ausa fé úr ríkissjóði án gildra röksemda, án gildra greininga, án þess að afraksturinn muni bæta okkur eitthvað, færa okkur eitthvað fram á veginn og líklega á kostnað komandi kynslóða. Þannig lítur þetta út fyrir okkur í Bjartri framtíð, bara það grundvallaratriði. Þetta er eðli þessa máls. Þetta er bruðl. Þetta er óráðsía. Þetta er óábyrg meðferð á opinberu fé, peningunum okkar. Munu peningar fara í súginn í þessu? Þeim er illa varið. Það er það sem blasir við.

Við samþykktum þingsályktunartillögu hér í upphafi kjörtímabilsins beint eftir kosningarnar um að kanna hvaða aðgerðir væru skynsamlegar í skuldamálum heimilanna. Við sáum enga ástæðu til þess í Bjartri framtíð að vera eitthvað sérstaklega á móti því að ríkisstjórnin kannaði sjálf hvernig hún ætlaði að reyna að framkvæma sín eigin kosningaloforð. Við sáum enga ástæðu til þess að leggjast á nokkurn hátt gegn því. En í kosningabaráttunni síðustu vorum við mjög afdráttarlaus: Við studdum ekki svona hugmyndir. Við töldum og höfum alltaf talið að ýmislegt þyrfti að gera varðandi skuldamál heimilanna, en þessar hugmyndir blöstu við okkur strax í kosningabaráttunni sem allt of dýrar og allt of ómarkvissar og við byggðum það líka meðal annars og ekki síst á yfirgripsmikilli skýrslu um áhrif ámóta aðgerða sem Seðlabanki Íslands vann þar sem bersýnilega kom í ljós að svona aðgerðir, svona flatar almennar aðgerðir á skuldamarkaði, mundu ekki gagnast þeim sem þyrftu hjálp. Sú skýrsla og góða greining lá fyrir í kosningabaráttunni. Það lá fyrir að meginhluti eða mjög stórar upphæðir af þessu öllu saman mundu fara til fólks sem á mikið og hefur miklar tekjur, vegna þess að það er fólkið sem skuldar mikið. Það er einn stærsti óráðsíu- og bruðlþátturinn í þessu frumvarpi.

Strax þegar maður horfir á málið kemur heiti þess spánskt fyrir sjónir. Talað er um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána. Á þeim forsendum hefur alltaf verið talað, það er hægt að leiðrétta verðbólguskot sem varð á ákveðnu tímabili í kjölfar efnahagshrunsins. Það sló mig strax í meðförum nefndarinnar að þetta er fullkomið rangnefni á frumvarpinu. Það er ekkert skilgreint í forsendum frumvarpsins hvað verið er að leiðrétta. Það eru engir útreikningar sem liggja til grundvallar því hvað á að leiðrétta. Það er einfaldlega undir hælinn lagt. Þá ætti þetta frumvarp einfaldlega að heita frumvarp til laga um yfirtöku hluta verðtryggðra fasteignalána sumra, mundi ég nú bæta við. Það væri réttnefni á frumvarpinu. Um það erum við að ræða.

Auðvitað stendur ekki til að breyta nafninu, en það er mjög áríðandi að átta sig á því að þetta er rangnefni. Það er mjög merkilegt vegna þess að það var svo mikið talað um, í rökstuðningi fyrir svona aðgerðum, að það ætti að leiðrétta forsendubrest. Það eru í raun stórtíðindi að forsendubresturinn er ekki skilgreindur, engin tilraun gerð til þess að reyna að koma rökföstum grundvelli undir þetta frumvarp, undir þessar aðgerðir. Það gerir að verkum að þær birtast manni einhvern veginn algjörlega út í loftið.

Í kosningabaráttunni töluðu hinir eindregnustu fylgismenn svona tillagna um flata niðurfellingu skulda, verðtryggðra lána, alltaf um það að á einhvern mjög furðulegan hátt að þetta yrði ekki fjármagnað með skattfé. Helsta gagnrýni allra greiningaraðila, stjórnmálaafla, okkar í Bjartri framtíð, hefur snúist um það að svona aðgerð mundi kosta ríkissjóð of mikið. Mér er það alveg í fersku minni hvernig talsmenn svona tillagna dæstu og ranghvolfdu augunum þegar þeir þurftu enn og aftur að leiðrétta þann misskilning sem var í umræðunni að svona aðgerðir yrðu fjármagnaðar úr ríkissjóði. Það var ítrekað sagt við kjósendur í aðdraganda síðustu kosninga að auðvitað yrði þetta ekki fjármagnað úr ríkissjóði. Peningarnir mundu koma úr einhvers konar svigrúmi. Það var mikið talað um eina fuglategund í því sambandi. Það var talað um að peningarnir kæmu frá hrægömmum. Ein löng óskiljanleg ræða fjallaði um það að þetta kæmi úr einhvers konar loftbólu í hagkerfinu sem þyrfti að tappa af. Allt var þetta sagt með miklum sannfæringarkrafti og þurfti svolítið vænan skerf af gagnrýninni hugsun til þess einfaldlega að minna sjálfan sig á að svona málflutning verður maður að skilja á einhvern hátt til að geta tekið undir hann. Ég skildi þessar röksemdir aldrei. Ég skildi aldrei þennan málflutning. Mér fannst alltaf blasa við að þetta yrði einfaldlega fjármagnað með skattfé, með opinberu fé. Mér fannst það augljóst mál. Það fannst mjög mörgum það alveg augljóst mál og voru þess vegna alltaf á móti þessu.

Hvað kemur síðan á daginn eftir kosningar? Hvað er orðið alveg kristaltært núna? Þessir 80 milljarðar, sem fara í yfirtöku á höfuðstól verðtryggðra lána sumra, eru peningar úr ríkissjóði. Það er alveg skýrt. Þetta eru peningar úr ríkissjóði. Hæstv. forsætisráðherra hefur reynt að orða þetta þannig að þetta séu peningar sem hafi viðkomu í ríkissjóði. Allir peningar eru þannig. Allt skattfé er þannig. Tekjur ríkissjóðs eru allt peningar sem hafa viðkomu í ríkissjóði en er síðan deilt út aftur. Þessir peningar eru ekkert öðruvísi en þeir peningar. Þetta eru ekki markaðar tekjur. Við erum ekki búin að setja lög um það að sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki skuli renna til þessara aðgerða. Sérstaki skatturinn á fjármálafyrirtæki, sem meðal annars er settur á þrotabú gömlu bankanna — við samþykktum hann í Bjartri framtíð, við samþykktum tekjuöflunina — sá peningur, sá skattur, getur runnið til alls konar hluta.

Ég hef ítrekað kallað eftir því að svokallaður fórnarkostnaður sé greindur af þessum aðgerðum. Ég hef spurt hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvort einhvern tímann hafi komið til tals í hans ráðuneyti að velta því fyrir sér hvort 80 milljarðar á fjórum árum mundu nýtast betur til annarra verkefna. Svarið er nei. Slík greining hefur ekki farið fram. Það er stórmerkilegt. Hér er hrúga af peningum, 80 milljarðar, sem eru að koma inn í ríkissjóð og það hefur engin greining farið fram í fjármála- og efnahagsráðuneytinu á því hvernig þessum peningum, sem eru að koma inn af nýjum skattstofni, yrði best varið í þágu heimila, í þágu þjóðarinnar, í þágu framtíðarinnar, í þágu góðrar hagstjórnar. Engin slík greining — núll — liggur til grundvallar þessu. Þessi útdeiling fjármuna er fullkomið dæmi um gagnrýnisleysi. Algjört hugsunarleysi. Hvað væri hægt að gera fyrir 80 milljarða?

Ríkissjóður Íslands er einn af skuldsettustu ríkissjóðum Evrópu. Skuldir ríkissjóðs þýða að afborganir, greiðslur vaxta, eru stærsti útgjaldaliður fjárlaga, eitthvað í kringum 70 til 80 milljarðar á ári hverju, byrðar sem við verðum að greiða úr ríkissjóði á hverju ári. Með því að greiða niður opinberar skuldir, sem eru skuldir okkar allra, má lækka þessar byrðar, þessar árlegu byrðar. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur ekkert greint hvort þetta gæti kannski verið skynsamlegt, hvort þetta gæti verið skynsamleg ráðstöfun á þessu fé þó ekki væri nema að hluta til. Það er bara ekkert spáð í það. Það er hægt að lækka greiðslur ríkissjóðs um nokkra milljarða á ári hverju um ókomna framtíð með þessum peningum. Það er hægt að nota þá peninga á hverju ári um ókomna framtíð til að efla menntun, heilsugæslu, eða til að lækka álögur. Það hefur ekkert verið farið yfir það hvort þetta gæti verið skynsamlegt.

Ekki er heldur búið að greina á þessum tímapunkti hver möguleg fjárþörf ríkisins er, heilbrigðiskerfisins, menntakerfisins, vegakerfisins, fjarskiptakerfisins, allra þessara stóru útgjaldaliða í ríkisreikningnum á þessum tímapunkti. Það er ekkert búið að greina hver fjárþörfin er. Við sjáum hana hins vegar gjósa upp hér á hverju hausti þegar við ræðum fjárlög. Það vantar pening í menntakerfið. Það vantar pening í heilbrigðiskerfið. Það vantar pening í nauðsynlega uppbyggingu. Bara núna í þessari viku var Landspítalinn að fara yfir það að það vantar 4,5 milljarða í algjörlega nauðsynlegt viðhald á spítalanum — bara nauðsynlegt viðhald. Þetta eru 4,5 milljarðar. Verður hann til hérna í haust? Verður hann fyrir hendi?

Innviðir þessa samfélags eru komnir að ystu mörkum, þeir eru komnir að bjargbrúninni. Við vorum að taka þá umræðu hér síðasta haust. Það mun þurfa mikla peninga í viðhald og uppbyggingu. Ef við frestum slíkum fjárútlátum þurfa einfaldlega aðrir að ráðast í þessi útgjöld seinna. Þau hlaðast bara upp. Ef við ætlum að hafa vegi á annað borð verðum við að halda þeim við. Þetta er bara eitt form af lántöku. Það að nota þessa peninga ekki, þó ekki væri nema að hluta til, til þess að borga niður þessar skuldir, sem lýsa sér í uppsöfnuðu viðhaldi og uppbyggingarþörf, það þýðir einfaldlega að það verður að sækja þá peninga annars staðar. Hvar liggja þeir? Þetta er einn fórnarkostnaðurinn. Svo væri líka hægt að hugsa sér að nota þessa peninga til fjárfestinga með markvissum hætti til að skapa tekjur í framtíðinni, til fjárfestinga í menntun, rannsóknum, nýsköpun, til uppbyggingar í skapandi greinum, þó ekki væri nema brotabrot af þessum peningum til að fjármagna alla þá skýrslugerð sem hefur verið unnin á undanförnum árum um sóknarmöguleika í þessum greinum, til að fjárfesta í fjölbreyttu atvinnulífi, til að skapa þjóðfélag með miklu meiri framlegð en nú er á vinnumarkaði. Það mundi skila tekjum í framtíðinni. Það væri sjálfbær notkun á þessum fjármunum öllum saman.

Það einkennir þetta mál allt saman skortur á langtímahugsun, skortur á greiningu, skortur á einhverju mati, hvað er best að gera. Það er verið að ráðast í þetta einhvern veginn af því bara, vegna þess að þetta er búið að sveima í stjórnmálaumræðunni í fimm ár og menn halda því fram að þetta hafi á einhvern hátt verið niðurstaða síðustu kosninga. Samt talaði enginn um það í kosningabaráttunni að það ætti að fjármagna þetta með ríkisfé. Talaði enginn um það. Það er nú bara veigamikil forsenda hér.

Við megum ekki láta af gagnrýninni. Við verðum að skoða á þessum tímapunkti og við atkvæðagreiðsluna sem fram fer hér í vikunni: Er þetta rétt, er þetta gott? Okkar niðurstaða, það er það ekki. Ég segi að það sé skortur á langtímahugsun og hún þarf nú ekkert endilega að vera til svo langs tíma. Það er bara skortur á hugsun til næstu tveggja ára.

Bankaskatturinn var lagður á hér með þeim formerkjum, er kirfilega staðfest í greinargerð með því frumvarpi að gert væri ráð fyrir tekjum af honum til tveggja ára. Eftir tvö ár mætti gera ráð fyrir að bú gömlu bankanna væru gerð upp. Ég spurði ítrekað hér í umræðum í þinginu: Hvernig ætla menn að fjármagna með bankaskatti 20 milljarða á ári í fjögur ár ef bankaskatturinn, samkvæmt greinargerð frumvarps frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, á bara að skila tekjum í tvö ár? Ég fékk ekkert svar. Ég hef ekki enn fengið nein svör. Það eru líklega hrægammar sem eiga að borga það, eða hvað? Hvaða töfrabrögð, hvaða loftbóla á að greiða þennan mun sem er á tveimur árum og fjórum? Þannig að það er ekki einu sinni búið að hugsa þetta mál alveg til enda miðað við þau fjögur ár sem þessar aðgerðir eiga að standa.

Síðan segir ríkisstjórnarmeirihlutinn núna, meiri hlutinn hér á þingi, í áliti sínu fyrir þessu máli, að ef til þess komi að þessar aðgerðir muni skorta fjármögnun, ég gat ekki skilið álitið öðruvísi, þá verði fjármagn sótt annars staðar, þá verði einfaldlega skorið niður annars staðar. Ég hef spurt bæði fjármála- og efnahagsráðherra og hæstv. forsætisráðherra í fyrirspurnatíma hvort það sé réttur skilningur hjá mér að ef einhver áföll verða í ríkisrekstrinum, t.d. ef bankaskattur mundi nú bara minnka sem tekjupóstur í einu vetfangi með uppgjöri gömlu búanna, mun þessi aðgerð, þessir 20 milljarðar á ári, njóta forgangs sem útgjaldaliður í fjárlögum? Svar þeirra beggja var: Já. Það er sem sagt svoleiðis.

Ég hef verulegar áhyggjur af þessu. Það hefur ýmislegt dunið á í ríkisfjármálum. Sprottið getur upp áðurnefnd fjárþörf, mjög mikil, í heilbrigðisgeiranum, í menntageiranum, í innviðum samfélagsins. Hún getur sprottið upp og hún er í raun algjörlega fyrirsjáanleg, við þurfum að takast á við hana. Það getur orðið brestur í afkomu sjávarútvegsfyrirtækja eins og við höfum rætt hér, sem skilar minna veiðigjaldi. Það geta verið ófyrirséðir kostnaðarliðir hjá Íbúðalánasjóði. Við höfum aldeilis rekið okkur á það á undanförnum árum og Íbúðalánasjóður spáir nú, á dálitlu bili, miklum kostnaði út af þessum aðgerðum. Það mun dynja á okkur. Fyrirtæki eru að fara úr landi, stór fyrirtæki. Það er ein vísbending þess að við erum ekki að einbeita okkur nógu mikið að fjárfestingu í fjölbreyttu atvinnulífi. Það gæti skilað minni tekjum. Spá í fjármálum hins opinbera, sem lögð var fram hér í fjárlagafrumvarpinu, hún gefur ekkert tilefni til bjartsýni. Hún gefur ekkert tilefni til þess að ætla að það séu einhverjir betri tímar í vændum varðandi tekjur ríkisins. Vextir af lánum, það er stærð sem getur skipt verulega miklu máli í ríkisreikningnum. Það geta bara alls konar hlutir dunið á. Þá mun þetta njóta forgangs. Þá held ég að muni nú heyrast hljóð úr horni þegar Íslendingar eru búnir að panta pítsuna, eins og það var orðað, búnir að fara í reiknivélina og sjá að þeir munu mögulega fá einhverja smániðurfellingu höfuðstóls lána sinna, en án þess að það skipti verulega miklu máli sérstaklega fyrir þá sem eiga í miklum erfiðleikum, það segja þó greiningar. Þetta mun allt fara fram nú í sumar, svo á að borga þetta allt saman á vísa rað 20 milljarða á ári næstu fjögur árin. Eftir þrjú ár, eftir tvö ár, þegar flestir verða líklega búnir að gleyma pítsunni, hvernig mun hann þá líta út þessi útgjaldaliður, 20 milljarðar, sem við erum búin að skuldbinda okkur til að greiða, þegar við förum að ræða hér gríðarlega fjárþörf í heilbrigðis- og menntamálum bara svo dæmi sé tekið? Hvernig mun það nú líta út?

Ég ætla aðeins að glugga hér í fyrirliggjandi frumvarp um opinber fjármál, frumvarp til laga um opinber fjármál, lagt fram af hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Það er alveg kristaltært í mínum huga, þegar ég tala um þetta mál í samhengi við ríkisfjármál, að það mundi aldrei standast þau lög ef það frumvarp væri orðið að lögum. Það mundi aldrei standast lög um opinber fjármál.

Ég ætla að grípa niður í 6. gr., sem kveður á um grunngildi fjármálastefnu og fjármálaáætlunar. Þar eru nefnd nokkur lykilorð.

„Stefnumörkunin skal byggð á eftirtöldum grunngildum:

1. Sjálfbærni sem felst í því að opinberar skuldbindingar séu viðráðanlegar til skemmri og lengri tíma og leggi ekki ósanngjarnar byrðar á komandi kynslóðir.“

Í þessu máli og því máli sem við höfum líka rætt, um séreignarlífeyrissparnað og skattafslátt og inngreiðslu hans inn á höfuðstól verðtryggðra lána eða lána yfir höfuð, er þetta þverbrotið. Þessar byrðar eru meira eða minna í töpuðum skatttekjum komandi kynslóða og í bruðli í þessu frumvarpi. Þessar byrðar eru einfaldlega lagðar á komandi kynslóðir. Það stendur til. Með því að fara ekki niður í niðurgreiðslur opinberra skulda, með því að fara ekki í nauðsynlegt viðhald og uppbyggingu er einfaldlega verið að demba þeim kostnaði með þessu á komandi kynslóðir. Þannig að hér er ekki verið að fara eftir þessu grunngildi um sjálfbærni.

Varfærni er grunngildi númer tvö:

„2. Varfærni sem miðar að hæfilegu jafnvægi á milli tekna og gjalda, og að ekki séu teknar ákvarðanir eða aðstæður skapaðar sem geta haft ófyrirséðar og neikvæðar afleiðingar.“

Varfærni sem sagt. Lýsir það varfærni að segjast hafa fjármagnað 80 milljarða aðgerð með tekjupósti sem í hinu orðinu á að skila 40 milljörðum? Að brúa ekki bilið milli fjögurra ára og tveggja? Lýsir það varfærni að reiða sig svona rosalega á tekjustofn eins og bankaskattinn sem getur horfið í einu vetfangi? Lýsir það varfærni að hafa í raun ekkert plan B nema segja að það verði skorið niður annars staðar? Mér finnst það ekki lýsa varfærni.

Stöðugleiki, það er þriðja orðið sem á að hafa að leiðarljósi í ríkisfjármálum. Ég kem nú betur að því síðar, en þessar aðgerðir, það er nokkuð kristaltært, við getum öll verið sammála um það, þær stuðla ekki að stöðugleika. Þær munu hafa þensluhvetjandi áhrif og það liggur nokkuð ljóst fyrir á þessum tímapunkti að þær munu stuðla að vaxtahækkunum, það liggur bara fyrir. Menn eru hins vegar reiðubúnir að kyngja því virðist vera, en þessar aðgerðir stuðla ekki að stöðugleika. Ýmislegt annað mundi stuðla að stöðugleika, en ekki þetta.

Festa á að einkenna meðferð ríkisfjármála. Ég er ekki viss um að sveitarfélögin í landinu upplifi þennan málatilbúnað allan sem beinlínis grundvallaðan á því gildi, festu. Ekkert hefur verið við þau rætt, það hefur margoft komið fram hér í umræðunni. Sá tekjumissir sem þau verða fyrir, með þessari ákvörðun ríkisstjórnarflokkanna, hefur ekki verið ræddur við sveitarfélögin sem kemur líka inn á fimmta gildið sem er gagnsæi. Það skortir dálítið upp á það gagnvart þeim.

7. greinin í þessu frumvarpi:

„2. Að heildarskuldir, að frátöldum lífeyrisskuldbindingum og viðskiptaskuldum en að viðbættum sjóðum og bankainnstæðum, séu lægri en sem nemur 45% af vergri landsframleiðslu.“

Þetta verður markmiðið í opinberum fjármálum þegar þetta frumvarp um opinber fjármál verður samþykkt. Það er kannski blessunarlega, fyrir þá sem eiga að mæla fyrir því frumvarpi sem við ræðum hér núna, að frumvarp um opinber fjármál er ekki orðið að lögum. Okkur bæri þá að nýta þessa peninga, sem eru að koma inn í ríkisstjórn í gegnum bankaskattinn, til að greiða niður opinberar skuldir, skiljanlega. Fáar ef nokkrar aðgerðir í ríkisfjármálum auka eins mikið svigrúm í ríkisfjármálum, stuðla jafn mikið að sjálfbærni eru jafn skynsamlegar og þær að reyna að greiða niður opinberar skuldir. Við erum því að fara að ræða á næstunni frumvarp sem segir að það skuli vera forgangsmál, en rétt áður en það verður samþykkt ætlum við að setja 80 milljarða í eitthvað allt, allt annað. Mér finnst þetta alveg rosalega undarlegt.

Efnahagslegu áhrifin hafa afskaplega lítið verið greind, finnst mér. Seðlabankinn hefur þó sagt og það er alveg augljóst að þetta muni auka þensluna í hagkerfinu, leiða til aukinnar verðbólgu og það verður þörf á því að hækka vexti. Við höfum sagt í þessari umræðu allri, þegar talað er um forsendubrest, að það sé villandi eða röng nálgun að vera sífellt að einblína á að reyna að bæta upp forsendubrest sem reyndar er ekki skilgreindur í þessu frumvarpi, frekar eigum við að einbeita okkur að því að bæta forsendurnar. Við eigum að einbeita okkur að því að reyna að koma á stöðugleika í íslensku samfélagi, fjölbreyttu atvinnulífi með meiri framleiðni þannig að fólk geti virkilega aflað sér tekna með vinnu sinni í mun meira mæli en nú er.

Við höfum talað fyrir aðhaldi í ríkisfjármálum sem þeir munu ekki geta gert sem samþykkja þetta frumvarp.

Ef við gerum þetta ekki allt saman, ef við grípum ekki til aðgerða, til dæmis með nýjum gjaldmiðli, til að koma á stöðugu efnahagsumhverfi, þá verðum við með verðtryggingu í þessu landi, þá mun fólk vilja sækja í verðtryggð lán eins og er að gerast núna bara síðustu missirin. Eftir tímabundna aukningu á óverðtryggðum lánum er fólk aftur farið að sækja í verðtryggð lán vegna þess að það treystir ekki efnahagslífinu. Með verðtryggð lán mun höfuðstóll lánanna aftur hækka í verðbólguskoti. Það eru alveg líkur á verðbólguskoti. Við búum við höft á gjaldeyri, gjaldeyrishöft, höft á fjármagnsflutningum. Ef gengið fellur eitthvað út af áföllum í því umhverfi öllu saman þá hækkar verðbólgan, þá hækka verðtryggðu lánin. Þá gerist þetta allt aftur.

Seðlabankastjóri hefur lýst því svo að sú aðgerð að afnema gjaldeyrishöft sé eins og eitt skot í byssu og verði að takast. Það er aldeilis áhættan. Ef það tekst nú ekki og gengið hrynur, þá hækkar höfuðstóll verðtryggðra lána, þá hækkar verðbólgan. Hvað þá? Erum við þá aftur að fara að bjóðast til að greiða hluta þeirra lána?

Forsendur íslensks efnahagslífs eru einfaldlega þannig, og ég gríp til líkingamáls í mínu nefndaráliti, að hér er bara um götótta fötu að ræða. Við erum núna að fara að hella vatni í þessa fötu án þess að laga hana fyrst. Þetta kemur allt aftur í bakið á heimilunum. Höfuðstóll lánanna hækkar. Árið 2010 afskrifuðu bankarnir, í aðgerð sem var sprottin af þeirra hvötum og í ljósi umræðunnar á þeim tíma, valkvætt höfuðstól verðtryggðra lána um 20%, meðal annars eitt lán sem ég var með. Það er alveg lýsandi að þetta vakti eiginlega enga athygli. Það voru allir búnir að gleyma þessu. Þetta bara hvarf út í verðbólguna. Fólk sá engan mun.

Reyndar er það nú svolítið lýsandi fyrir óréttlætið að það er þessi hópur — þetta var ekki almennt opinbert úrræði, þetta var ekki opinbert úrræði — að þessi hópur sem fékk þessa lækkun á höfuðstól verðtryggðra lána sinna í gegnum bankakerfið, hann mun fá aftur núna niðurfellingu höfuðstóls lána sinna. Þetta er sem sagt ekki frádráttarbært.

Ég leyfi mér að halda því fram, ég ræddi nú svolítið um það í tengslum við hitt málið varðandi séreignarlífeyrissparnaðinn, að það sé alröng hagstjórn að fara í það núna að lækka höfuðstól verðtryggðra lána með svona almennri aðgerð. Ég held að það sé uppsöfnuð þörf heimilanna núna, eftir langvarandi samdráttarskeið fyrir neyslu, fyrir ónauðsynlega og nauðsynlega neyslu. Þessi aðgerð, ásamt aðgerðinni um lífeyrissparnaðinn, mun einfaldlega skapa aukið veðrými. Vegna þess að það er skortur á haldbæru fé hjá heimilum, til þess að fjármagna neyslu, og við getum t.d. litið á bílaflotann í þessu samhengi, hann er mjög gamall, þarfnast endurnýjunar, þá er ákaflega líklegt að það veðrými verði notað til skuldsetningar. Ég hef líka haldið því fram að þörf bankanna til að endurlána allt það fé sem nú verður uppgreitt verði ákveðinn drifkraftur í þessu samhengi, að þetta muni leiða aftur til skuldsetningar, veðrýmið verði einfaldlega nýtt. Það væri týpískt.

Það gerðist haustið 2004 þegar sömu flokkar og ráða nú hækkuðu þak á veðsetningu á lánum og það gerðist í stórum stíl að almenningur skuldbreytti lánum, til dæmis hjá Íbúðalánasjóði, og fjármagnaði neyslu sína á miklum þenslutímum. Þetta var til að auka þensluna og einkaneysla á Íslandi leiðir yfirleitt til viðskiptahalla. Við honum megum við alls ekki á þessum tímapunkti. Þegar við glímum við ógnina af tröllauknu útstreymi fjármagns úr íslensku hagkerfi. Við glímum við greiðslujöfnunarvanda við útlönd. Þannig að það er mjög óráðið og mjög óskynsamlegt að grípa til einhverra þeirra aðgerða nú sem mögulega geta aukið einkaneyslu og viðskiptahalla.

Ég fór yfir það áðan í upphafi ræðu minnar að þetta væri gömul hugmynd, hún hefði svona sveimað yfir stjórnmálalandslaginu um nokkurra ára skeið. Strax í eftirleik hrunsins blasti við sviðin jörð, við blasti fjöldagjaldþrot heimila. Það var alveg augljóst mál. Það þurfti að grípa til aðgerða. Það var rifjað upp á einum netmiðli í dag að ég stóð í þessum ræðustól 2010 og kallaði eftir aðgerðum í skuldamálum heimilanna. Það var alveg kristaltært að grípa þurfti til markvissra aðgerða.

Mér finnst menn hins vegar oft í umræðunni skauta svolítið létt yfir það að mjög mikið hefur verið gert, mjög margt hefur verið gert. Fólki var gefinn kostur á að afskrifa lán miðað við eign sína niður í 110% af matsvirði eignar sinnar. Því var gefinn kostur á að leita frjálsra samninga um sérstaka skuldaaðlögun við sína kröfuhafa. Sett var á fót stofnun sem heitir umboðsmaður skuldara þar sem fólk getur leitað frjálsrar greiðsluaðlögunar sem getur jafnvel leitt til þess að öll lán þessa fólks eru afskrifuð ef það er í þess háttar greiðsluvanda. Fólki var gert kleift að taka út séreignarlífeyrissparnaðinn sinn og nýta hann þess vegna til að greiða niður lán. Peningur var settur í sérstakar vaxtabætur upp á tugi milljarða. Gengislánadómur féll. Hann skipti mjög miklu máli, bæði fyrir fasteignalán og bílalán og lánastofnanir á almennum markaði gerðu mjög mikið eins og ég minntist á hér áðan, t.d. afskrifuðu þær höfuðstól verðtryggðra lána, margar stofnanir, um 20%, svo að dæmi sé tekið. Við breyttum gjaldþrotalögum þannig að kröfur fyrnast á tveimur árum. Nauðungaruppboðum var frestað. Þannig að frá því að ég stóð hér og fleiri stóðu hér í eftirleik hrunsins og kölluðu eftir aðgerðum var ýmislegt gert. Ég tók þátt í því í félags- og tryggingamálanefnd að hanna ýmis úrræði. Síðan hafa 250 milljarðar verið afskrifaðir á heimilin — 250 milljarðar.

Nú blasir ekki við sviðin jörð. Það blasa ekki við fjöldagjaldþrot. Það sem blasir við núna er þörfin á skynsamlegri hagstjórn, þörfin á stöðugleika, þörfin á viðvarandi lægri vöxtum, þörfin á því að við komum upp samfélagi þar sem fjölbreytt atvinnulíf getur þrifist með meiri framleiðni og hærri tekjum. Það er þörfin sem blasir við.

Margt bendir því til þess að þessar aðgerðir núna séu einfaldlega tímaskekkja. Það er ekki þörf á kostnaðarsömum dýrum bráðaaðgerðum varðandi skuldaaðgerðir heimilanna. Við þurfum hagstjórn á þessum tímapunkti.

Efnahagslegar röksemdir skortir að mínu mati og þetta er glapræði fyrir ríkissjóð. En fylgismönnum þessara tillagna verður tíðrætt um réttlætissjónarmið sem eigi að búa að baki þessu, að það sé einhvers konar réttlæti að koma til móts við heimilin. Ég hef áður farið yfir það hér rétt áðan að ýmislegt hefur verið gert til að taka á skuldavanda heimilanna til að fyrirbyggja og koma í veg fyrir algjört hrun heimilanna, til að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot. Það tókst.

Hins vegar eiga fjölmargir Íslendingar í skuldavanda. Það veit til dæmis umboðsmaður skuldara sem er með nokkur hundruð manns þar sem geta ekki greitt af fasteignalánum. Mér finnst það alveg ótrúlegt, miðað við svona ótrúlega dýra aðgerð og umfangsmikla, að því fólki er ekki hjálpað. Fólki sem er í greiðsluvanda en skuldar lítið í krónutölu í raun, er með lágar tekjur og fær mjög litlar afskriftir í gegnum þessar aðgerðir. Það verður áfram í greiðsluvanda. Hefur enginn áhyggjur af því?

Sem sagt — hagstjórnarlegum skilyrðum er ekki fullnægt með þessum aðgerðum eins og segir í nefndaráliti meiri hlutans mun þetta líklega ekki hafa neikvæð áhrif, það er nú mælikvarðinn. Ég mundi segja að þetta ætti að hafa jákvæð áhrif ef við ættum að styðja þetta. Þannig að hagstjórnarlegir mælikvarðar eru frekar bágbornir í þessu og réttlætismælikvarðarnir gera þessu frumvarpi heldur ekkert gott. Við erum sem sagt að fara út í þetta allt saman án þess að hjálpa þeim sem eru í verulegum skuldavanda, sem eru í verulegum vanda í þjóðfélaginu við að greiða skuldir sínar. Við ætlum að gera þetta allt saman án þess að þeir verði bættari. Við ætlum að færa þeim peninga sem eiga mjög mikið, hafa miklar tekjur og það er kallað réttlátt. Miðað við mína útreikninga eru það um 12 milljarðar af þessu sem fara til fólks með meira en eina milljón í mánaðartekjur. Til hvers? Af hverju erum við að þessu? Mér er algjörlega fyrirmunað að sjá réttlætið í því að fólk sem á miklar eignir og hefur háar tekjur fái mikið fé úr ríkissjóði á meðan fólk með litlar tekjur sem glímir við mikinn vanda fær lítið. Ég á bara erfitt með að sjá það.

Hér vantar alveg greiningar. Það er reyndar athyglisvert að við óskuðum mjög eftir gögnum í efnahags- og viðskiptanefnd. Við óskuðum eftir því að fá að sjá hvernig þetta mundi dreifast til dæmis miðað við eignastöðu fólks. Við fengum það, held ég, á síðasta degi nefndarumfjöllunar. Það var svolítið athyglisvert að sjá hvernig þingmenn lásu í sig þessi gögn af áfergju. Mér birtist það sem svo að þingmenn í nefndinni hefðu ekki séð þessi gögn áður. Er það ekki ótrúlegt að fara út í svona umfangsmiklar aðgerðir fyrir svona mikinn pening og að grunngagn eins og bara greining á eignastöðu fólks og hvert þessar upphæðir muni renna miðað við eignastöðu lágu ekki fyrir við meðferð málsins fyrr en á síðasta degi? Mér finnst það með ólíkindum.

Eina skýrslan sem forsætisráðuneytið eða hæstv. forsætisráðherra hefur látið svo lítið að gefa út um efnahagsleg áhrif framkvæmda þessara tillagna var lögð fyrir á þessu löggjafarþingi og er svar við beiðni hv. þm. Árna Páls Árnasonar og fleiri um að efnahagslegu áhrifin séu greind. Þar eru til dæmis greind áhrif þessara aðgerða á eiginfjárstöðu heimilanna. Það er greint í þessari skýrslu frá þessum þingvetri. Þetta er það efnahagslega gagn sem ég hef séð. Tölurnar eru frá 2009, það er ekki einu sinni reynt að miða við nýjustu tölur um eiginfjárstöðu heimilanna. Bara á árabilinu 2010 til 2011 fækkaði heimilum með neikvæða eiginfjárstöðu um 16%. Þeim hefur fækkað enn meira síðan þá. Skuldastaða heimilanna hefur batnað mjög síðan þá. Fasteignaverð hefur hækkað mjög víða einkum hjá hinum skuldsettu heimilum hér á höfuðborgarsvæðinu þó að sagan sé önnur á landsbyggðinni.

Þetta slær mig. Það er ekki einu sinni reynt að miða við nýjustu tölur í skýrslu forsætisráðherra um áætluð áhrif af framkvæmd tillagna ríkisstjórnarinnar um höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána, það er miðað við tölur frá 2009. Þannig að ítarleg greiningarvinna háir nú ekki þessari málsmeðferð. Þetta, eins og ég segi, virðist vera gert með einhverjum gagnrýnislausum doða bara vegna þess að einhver lofaði þessu einhvern tímann.

Öryrkjar munu ekki njóta neins í þessu. Leigjendur munu ekki njóta neins í þessu. Húsnæðissamvinnufélög munu ekki njóta neins í þessu og auðvitað ekki þeir sem skulda ekki neitt, en það er auðvitað mjög stór hluti heimila þar sem skuldir eru engar og menn hafa borgað niður sínar skuldir með erfiði sínu. Það felst þess vegna frá mörgum hliðum pínlegt óréttlæti í því að aðgerðirnar taki einungis til þeirra sem skuldað hafa vegna húsnæðiskaupa á vissu tímabili.

Stór hluti heimila, svona meðaltekjuheimili, munu fá nokkur hundruð þúsund í niðurfellingu með ærnum tilkostnaði. Það mun ekki skipta miklu fyrir eiginfjárstöðuna. En ég velti því fyrir mér í nefndarálitinu: Ef mönnum er umhugað um réttlætið og er umhugað um að deila út peningum úr ríkissjóði, 80 milljörðum, er þá ekki bara best að láta alla fá pening, að láta alla fá sömu upphæðina? Miðað við þessa upphæð, 80 milljarða, mætti láta hvern og einn Íslending einfaldlega fá hátt í 300 þúsund kall, bara allir fá. Einstæðingur fær 300 þúsund kall. Barnafjölskyldur fá meira. Ef fjórir eru í fjölskyldu þá er það 1,2 milljónir. Er þetta ekki réttlátara? Þarna mundi peningurinn skila sér til þeirra sem þurfa hann, tekjumeiri einstaklingar hafa minna við 300 þúsund kall að gera, hann er minna virði fyrir þá, mjög mikils virði fyrir tekjulága einstaklinga. Þetta er mjög einfalt, afskaplega einfalt. Það er bara hægt að senda þennan pening í pósti til heimilanna.

Ef menn vilja virkilega fara að spreða peningum úr ríkissjóði, láta fólkið í landinu hafa peninga, er þetta þá ekki bara réttlátara? Láta alla hafa peninga. Urðu ekki allir fyrir verðbólguskoti? Búum við ekki öll hérna? Hækkaði ekki verðlag? Lækkuðu ekki laun? Missti fólki ekki atvinnu? Urðu leigjendur ekki fyrir áfalli? Hækkaði ekki leigan? Af hverju látiði ekki bara alla hafa pening? Það er réttlátara, en auðvitað er það óskynsamlegt.

Kem ég þá að lykilatriðinu í þessu. Við erum einfaldlega að tala um hvort við eigum ekki að stunda hér ábyrga meðferð á opinberu fé? Það er það sem þetta frumvarp snýst um og það gengur freklega gegn mínum mælikvörðum að minnsta kosti, og okkar í Bjartri framtíð, um hvað er ábyrg meðferð á opinberu fé.

Hver eru skilaboðin inn í framtíðina í þessu? Jú, í fyrsta lagi þau að við sem störfum og lifum núna ætlum að ganga freklega á tekjustofna framtíðarinnar, tekjustofna barna okkar og við ætlum ekki að greiða niður opinbera skuldir til að auka svigrúm í framtíðinni. Við ætlum ekki að ráðast í nauðsynlegt viðhald og uppbyggingu sem minnkar kostnað í framtíðinni. Gott og vel. Það eru skilaboð okkar sem núna störfum og lifum inn í framtíðina. Mér finnst það vond skilaboð. Ég mótmæli þeim. Svo ætlum við líka að segja við framtíðina að ef einhver svona skakkaföll verða eða áföll í fjármálalífinu, þá ætlar ríkisvaldið að taka yfir hluta skuldanna og greiða hluta skuldanna. Mér finnst að ríkisvaldið eigi að grípa til alls konar aðgerða. Fyrst og fremst á ríkisvaldið að reyna að bæta skilyrði fyrir atvinnulíf og heimilisrekstur í landinu og koma í veg fyrir hrun. Það á að reyna að efla fjárhagslegan stöðugleika. En ríkisvald á 21. öldinni sem ætlar fyrst og fremst að senda þau skilaboð út til fjármálakerfisins, út til heimilanna, að lítið eigi að gera varðandi stöðugleikann, en hins vegar ef það verður mikill óstöðugleiki þá mun ríkið hér koma og greiða hluta skuldanna — mér finnst þetta ekki skilaboð sem við eigum að senda inn í fjármálakerfið til heimilanna. Mér finnst þetta ekki skilaboð sem fela í sér að við séum að auka fjárhagslega ábyrgðartilfinningu í landinu. Mér finnst þetta röng skilaboð.

Ef við ætlum að hafa sveifluhagkerfi þá verðum við að segja við heimilin og fyrirtækin: Verið viðbúin. Hlutir geta gerst. Farið ekki glannalega. Farið varlega í einkaneyslu. Endurtakið ekki leikinn frá 2004 til 2008. Það eigum við að segja. Við erum ekki að segja það með þessu.

Meðferð ríkisfjármála þarfnast ábyrgðar, varfærni og sjálfbærra skilyrða og það liggur fyrir lagafrumvarp sem festir þau grunngildi í sessi. Það er ekki verið að fara eftir því í þessu.

Nú er þetta kosningamál komið og ég get ekki gert annað en að hvetja þingheim til að horfa vel í það af gagnrýninni hugsun að hér er um mjög mikið fé að ræða. Þetta þjónar ekki góðum tilgangi út frá hagstjórnarlegum sjónarmiðum. Þetta bætir ekki vanda þeirra sem eru í erfiðleikum. Þetta deilir út fé á óréttlátan hátt. Ég hvet fólk því til að hugsa um þessa hluti og hugsa um það að ef það samþykkir þessa tillögu í atkvæðagreiðslu hér í vikunni þá geta þeir sömu alþingismenn ekki talað um að stunda eigi ábyrg ríkisfjármál. Það er einfaldlega svoleiðis.

Ég vil bara hér í lokin hvetja alla þingmenn til gagnrýninnar hugsunar þegar við greiðum atkvæði um þessi mál.