144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:38]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa vonbrigðum mínum með þetta svar. Mér þætti vænt um ef við værum að ræða þetta aðeins betur í grunninn. Alþingi getur gert hitt og þetta. En er það forsvaranlegt? Það er það sem ég er að spyrja um. Getum við verið stolt af hinu og þessu sem Alþingi gerir? Það er það sem skiptir máli.

Það var sumt í máli þingmannsins hér áðan, til dæmis að það væri álit en ekki úrskurður frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og að umhverfismat framkvæmda tæki nú við — þetta er tálsýn, finnst mér, og orðhengilsháttur. Við vitum að Skipulagsstofnun hefur sagt okkur nefndarmönnum í atvinnuveganefnd að umhverfismat framkvæmda sé þannig að sveitarfélögum (Forseti hringir.) sé skylt að fylgja því sem Alþingi ályktar. Það er bara svoleiðis. Engum virkjunarkosti hefur verið vikið úr nýtingarflokki (Forseti hringir.) út af umhverfismati framkvæmda. Álit en ekki úrskurðir (Forseti hringir.) — er gott að halda sig við það og stæra sig af því?